FréttirSkrá á póstlista

11.08.2020

Ánægður með aflabrögðin í sumar

,,Það er ekki annað hægt en að vera ánægður með aflabrögðin í sumar. Við höfum fengið nóg fyrir vinnsluna og betur er ekki hægt að gera. Núna reynum við að veiða sem mest af ufsa og það hefur gengið þokkalega síðustu vikur,” sagði Haraldur Árnason, skipstjóri á frystitogaranum Höfrungi III AK, er rætt var við hann en Höfrungur III var þá staddur á Halanum á Vestfjarðamiðum.

Höfrungur III lagði upp í nýja veiðiferð sl. þriðjudagskvöld eftir löndun í Reykjavík.

,,Aflinn upp úr sjó var 331 tonn, sem millilandað var í Reykjavík eftir fyrri hluta túrsins, og svo 391 tonn eða rúmlega 720 tonn alls. Mest var þetta ufsi, karfi og þorskur. Þorvaldur Svavarsson og Friðrik Ingason voru með skipið og ég tók við fyrir tæpri viku,” segir Haraldur. Þegar lagt var upp var bræla á norðanverðum Vestfjarðamiðum og því hófst túrinn á veiðum í Víkurál og Látragrunni.

,,Veðrið gekk svo niður og við erum búnir að vera á Halanum í um fjóra daga. Ufsinn fór að láta sjá sig á Halanum í síðasta túr og hér er líka þorskur. Karfinn er horfinn en það er venjulegt ástand. Í júní og júlí var hins vegar mökkur af karfa í Víkurálnum og norðaustur allan kantinn. Ég held að margir séu því fegnir að karfinn sé horfinn af slóðinni því kvótastaða margra leyfði einfaldlega ekki meiri gullkarfaveiði nú undir lok kvótaársins,” segir Haraldur.

Að sögn skipstjórans er nú góð veiði á Halamiðum en margir bíði eftir því að svokallað Hornbankahólf verði opnað 17. ágúst nk.

,,Þarna hefur verið hægt að fá góða ýsuveiði og margir horfa til þess nú þegar ýsukvótinn hefur verið aukinn eftir mikinn niðurskurð.”

Haraldur segir að sem betur fer sé enn þorskur á Halanum en í fyrra tæmdist veiðisvæðið af þorski og skipin þurftu að fara eftir þorski allt austur á Kolbeinseyjarsvæðið. Reyndar hafa margir ísfiskveiðitogarar sótt á Kolbeinseyjarhrygginn að undanförnu líkt og þau skip sem aðallega veiða þorsk. Fyrir frystitogara sem leggi sig aðallega eftir ufsa og blönduðum afla með séu Halamið hins vegar álitlegur kostur.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir