FréttirSkrá á póstlista

01.07.2020

Rækjurall við Grænland gekk vel

Ísfisktogarinn Helga María AK er nú í höfn í Nuuk á Grænlandi en  nú í júní hefur skipið verið við rækjurannsóknir við Vestur-Grænland fyrir Náttúrustofnun Grænlands. Heimir Guðbjörnsson hefur verið skipstjóri en hann og áhöfn hans tóku þátt í sambærilegu verkefni í fyrra.

,,Allt gekk mjög vel. Við hrepptum reyndar smá brælu í byrjun túrsins en fátt kom á óvart. Það var mikill ís á svæðinu og miklu meiri þoka en í fyrra. Það hefur verið kaldara í veðri en t.a.m. í fyrrasumar og það skýrir e.t.v. þokuna,” segir Heimir en að hans sögn var farið á sömu togslóðir og í fyrra.

,,Við fórum norður á 72°33´N eða á sama stað og síðast. Við fórum í land í Ilulissat, þann 15. júní og gafst kostur á að fara fótgangandi að Ísfirðinum þar sem borgarísjakarnir ryðjast stöðugt út. Það var virkilega gaman að sjá þetta á landi.”

Að sögn Heimis var það bara við Baffinsland í lögsögu Kanada sem hafís var til vandræða.

,,Það var mjög mikill ís þarna og þéttari eftir því sem sunnar dró. Ísinn náði alveg út undir miðlínu milli Kanada og Grænlands og það eina, sem við gátum gert, var að verja þeim tíma sem ís hamlaði siglingu, hálfum öðrum degi, í rannsóknir í grænlenskri lögsögu,” segir Heimir.

Segja má að fyrri hálfleik í rannsóknaleiðangri Helgu Maríu sé nú lokið. Friðleifur Einarsson skipstjóri mun taka við af Heimi en hann er væntanlegur til Nuuk í dag með nýja áhöfn. Markmiðið með seinni hluta leiðangursins er að kanna útbreiðslu m.a. þorsks og karfa og verður síðustu dögum leiðangursins varið í rannsóknir við Austur-Grænland. Stefnt er að því að leiðangri Helgu Maríu ljúki 3. ágúst nk.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir