FréttirSkrá á póstlista

20.05.2020

Uppgjör Brims hf. á fyrsta ársfjórðungi 2020

  • Rekstrartekjur samstæðunnar voru 74,4 m€
  • EBITDA var 7,7 m€ (10,4%)
  • Hagnaður tímabilsins var 0,4 m€
  • Handbært fé frá rekstri nam 21,3 m€

Rekstur fyrstu þriggja mánaða ársins 2020

Rekstrartekjur Brims hf. á fyrsta ársfjórðungi ársins 2020 námu 74,4 m€, samanborið við 58,0 m€ árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 7,7 m€ eða 10,4% af rekstrartekjum, en var 9,7 m€ eða 16,7% árið áður. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 3,2 m€, en voru neikvæð um 0,8 m€ á sama tíma árið áður. Áhrif hlutdeildarfélaga voru neikvæð um 0,3 m€, en voru jákvæð um 0,05 m€ árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 0,8 m€ og hagnaður tímabilsins var 0,4 m€.

 

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 704,2 m€ í lok mars 2020. Þar af voru fastafjármunir 553,9 m€ og veltufjármunir 150,3 m€. Eigið fé nam 306,4 m€, eiginfjárhlutfall í lok mars var 43,5%, en var 45,3% í lok árs 2019. Heildarskuldir félagsins voru í marslok 397,8 m€.

 

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 21,3 m€ á tímabilinu, en nam 22,2 m€ á sama tíma fyrra árs. Fjárfestingarhreyfingar voru neikvæðar um 7,1 m€. Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 4,5 m€. Handbært fé hækkaði því um 9,6 m€ á tímabilinu og var í lok mars 63,1 m€.

 

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrsta ársfjórðungs 2020 (1 evra = 141,51 kr) verða tekjur 10,5 milljarðar króna, EBITDA 1,1 milljarður og hagnaður 0,06 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 31. mars 2020 (1 evra = 154,87 kr) verða eignir samtals 109,1 milljarðar króna, skuldir 61,6 milljarðar og eigið fé 47,5 milljarðar.

 

Skipastóll og afli

Skipastóll samstæðunnar er óbreyttur frá áramótum og eru nú átta skip í flota samstæðunnar.

Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2020 var afli skipa félagsins 12,7 þúsund tonn af botnfiski og 11,0 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

 

Kristján Þ. Davíðsson, stjórnarformaður Brims hf.:

"Afkoma Brims á fyrsta ársfjórðungi 2020 markast nokkuð af erfiðu tíðarfari og þar með gæftum í upphafi árs með nokkuð lakari afla og þar með afkomu, einkum í veiðum og vinnslu uppsjávarafla. Loðnubrestur annað árið í röð veldur einnig nokkru um afkomu fjórðungsins. Félagið nýtur nú góðs af fjárfestingum undanfarinna missera, bæði í Ögurvík og sölufélögunum í Asíu. Þrátt fyrir að verð sjávarafurða hafi almennt verið tiltölulega góð í upphafi árs eru horfur á mörkuðum óvissar vegna áhrifa heimsfaraldursins á neyslumynstur, sölu og flutninga."

 

Kynningarfundur þann 20. maí 2020

Rafrænn kynningarfundur um afkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi verður haldinn í dag miðvikudaginn 20. maí klukkan 17:00. Í ljósi aðstæðna fer hann eingöngu fram í gegnum fjarfundabúnað.

Hægt er að sækja um aðgang að fundinum á póstfangið kynning@brim.is

Kristján Þ. Davíðsson stjórnarformaður mun kynna uppgjörið og svara spurningum.

 

Viðhengi

Nýjustu fréttir

Allar fréttir