FréttirSkrá á póstlista

20.05.2020

Ágæt veiðiferð Helgu Maríu AK

,,Við vorum mest á svokallaðri Flugbraut, eða á Dritvíkurgrunni, í þessari veiðiferð en gáfum okkur einnig tíma til að fara suður í Skerjadjúp og á Fjöllim. Á Flugbrautinni fengum við ágætan þorskafla en svo vorum við einnig með karfa og ufsa.”

Þetta segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK, en skipið kom til hafnar í byrjun vikunnar með um 150 tonna afla. Þetta verður síðasta veiðiferð togarans á Íslandsmið í bráð því skipið hefur verið leigt til hafrannsókna við Grænland í sumar. Þetta er annað árið í röð sem Helga María er fengin í rannsóknir á útbreiðslu nytjastofna í grænlenskri
lögsögu en í fyrrasumar var skipið í um þrjá mánuði við rannsóknir á útbreiðslu rækju við Vestur-Grænland.

Er rætt var við Leif voru skipverjar á Helgu Maríu að undirbúa Grænlandsferðina og m.a. var dagurinn nýttur í að taka veiðarfærin í land. Stefnt er að því að skipið leggi svo upp í ferðina 29. maí nk. og á það að koma heim 3. ágúst nk.

Heimir Guðbjörnsson verður skipstjóri fyrsta mánuð rannsóknaverkefnisins en að þeim tíma loknum tekur Leifur við skipstjórninni. Heimir þekkir vel til verkefnisins enda var hann lengst af með skipið í rannsóknaverkefninu í fyrra.

,,Það verða 67 dagar að þessu sinni. Við byrjum á 26 dögum við rækjurannsóknir við Vestur-Grænland. Þá verður farið í tvær vikur í rækjurannsóknir suður við Hvarf og svo verða síðustu rúmu tvær vikurnar nýttar til að kanna útbreiðslu karfa og þorsks við Austur-Grænland,” segir Heimir Guðbjörnsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir