FréttirSkrá á póstlista

16.05.2020

Kolmunnaveiðin dregst saman

Víkingur AK kom til Vopnafjarðar fyrr í dag með um 2.500 tonn af kolmunna. Að sögn Hjalta Einarssonar skipstjóra er rólegt yfir veiðinni og ef eitthvað sé þá sé aflinn að dragast saman.

,,Þetta er þriðja veiðiferðin okkar í færeysku lögsöguna á þessu vori. Við byrjuðum syðst við lösögumörkin en færðum okkur svo norðar eða í kantinn á svokölluðu Munkagrunni. Svo barst leikurinn austur eftir og aflabrögðin voru orðin frekar slæm þegar við hættum veiðum,” segir Hjalti en hann upplýsir að lengi sé togað í hvert sinn.

,,Þetta voru gjarnan tog í heilan sólarhring og stundum lengur. Það dró jafnt og þétt úr aflanum og þar sem við enduðum voru skipin að fá um 200 tonn á sólarhring.”

Hjalti segir að enn sé fjöldi skipa á kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni. Af og til heyrist um góð hol en engin dæmi séu um að menn nái fullfermi á skömmum tíma.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir