FréttirSkrá á póstlista

04.05.2020

Mætti vera meiri kraftur í kolmunnaveiðinni

,,Það hefur gengið þokkalega en samt er enginn kraftur í veiðinni. Það vantar fisk á svæðið en það er ekki hægt að útiloka að kolmunninn gangi austar en undanfarin ár og fari framhjá okkur. Við höfum spurnir af því að kolmunni veiðist enn fyrir sunnan okkur í skosku lögsögunni og við erum að vona að hann sé einfaldlega seinna á ferðinni en við höfum átt að venjast.”

Þetta sagði Theódór Þórðarson, skipstjóri á Venusi NS, er tal náðist af honum en Venus átti þá eftir fimm til sex tíma siglingu til Vopnafjarðar. Í tönkum skipsins voru 2.700 tonn af kolmunna.

,,Við fengum þennan afla í átta holum og mest fengum við 510 tonn í einu holi. Það er togað lengi eða í 15 til 20 tíma í senn og aðallega er þetta þolinmæðisverk. Við erum mest að toga á hrygg syðst í færeysku lögsögunni og kolmunninn er mikið á 300 til 400 metra dýpi. Lóðningar eru oftast slakar og mikið er verið að toga í svokölluðu ryki. Það kemur þó fyrir að það lóðar á stöku torfur en heilt yfir virðist kolunnninn vera mjög dreifður,” segir Theódór en hann segir litlar fréttir vera af veiðum norðar og nær Færeyjum.

,,Við heyrðum reyndar um daginn að tvö skip hefðu fengið ágætan afla á svokölluðu Munkagrunni en magnið var samt ekki það mikið að það hefði verið til skiptanna fyrir fleiri skip.”

Theódór bindur enn vonir við að kraftur eigi eftir að færast í kolmunnaveiðarnar og hann minnir á að á þessum tíma í fyrra hafi verið mjög góð veiði norðar og nær Færeyjum.

,,Við höfum dæmi um að einstök skip hafi hitt á að fá góðan afla. Það hefur þó ekki verið almennur kraftur í veiðunum og ég er að vona að það bendi til að gangan sé seinna á ferðinni. Næstu dagar skera væntanlega úr um það,” segir Theódór Þórðarson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir