FréttirSkrá á póstlista

15.04.2020

Beðið eftir kolmunnanum

,,Við erum búnir að vera hér í fimm daga og höfum ekki kastað ennþá. Kolmunninn er ekki kominn,” segir Theódór Þórðarson, skipstjóri á Venusi NS en uppsjávarveiðiskip Brims, Venus og Víkingur AK, eru nú stödd ásamt flota annarra skipa syðst í færeysku lögsögunni. Beðið er eftir því að kolmunninn gangi sína hefðubundnu leið til norðurs.

Að sögn Theódórs hafa menn átt von á því að veiðin syðst í færeysku lögsögunni hæfist 9. til 12. apríl en einhver seinkun hefur orðið á göngunni þetta árið.

,,Ég veit ekki hvort það stafar af því að við vorum að veiða kolmunnann óvenju sunnarlega við Írland í vetur en hvað sem því líður hefur ekki orðið var við kolmunna hér fyrir norðan. Við vitum að það hefur verið veiði út af St. Kilda, sem er um 100 mílum fyrir sunnan okkur og fyrr í vikunni fréttum við af veiði hér 50 mílum fyrir sunnan. Norsku skipin, sem verið hafa við St. Kildu, eru smám saman að hætta veiðum en við verðum bara að bíða þolinmóðir.”

Theódór segir að síðustu dagar hafi verið notaðir í víðtæka leit og svo hafi menn einfaldlega látið reka.

,,Hér er töluverður fjöldi skipa, íslensk, færeysk og rússnesk, og m.a.s. Rússarnir hafa látið reka síðustu daga. Það hefur maður ekki séð áður en er kannski til marks um ástandið þessa dagana,” segir Theódór Þórðarson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir