FréttirSkrá á póstlista

08.04.2020

Átta tonn af ýsu í stuttu holi á hefðbundinni þorskslóð

Ísfisktogarinn Akurey AK kom til hafnar í Reykjavík í gær með um 120 tonna afla eftir sannkallaðan óveðurstúr á miðin fyrir sunnan landið. Magnús Kristjánsson var skipstjóri í veiðiferðinni og hann segir helgina hafa verið sérstaklega erfiða.

,,Ég er sáttur við aflann miðað við veðráttuna. Það var vont veður allan tímann en steininn tók þó úr um helgina. Þá var ekkert veiðiveður enda 30 metrar á sekúndu og við komum okkur því í var við Vestmannaeyjar. Við vorum komnir í var á laugardagskvöld og við biðum svo eftir skaplegra veðri fram yfir hádegi á sunnudag,” segir Magnús.

Akurey var mest að veiðum á Selvogsbanka utan hvað áhöfnin reyndi fyrir sér í Skerjadjúpi í um sólarhring.

,,Það er dálítið um þorsk á Selvogsbanka en maður hefur oft séð meira af þorski. Aflinn hjá okkur í túrnum var karfi, þorskur og ufsi og svo var ýsan alls staðar að flækjast fyrir. Ég tók t.a.m. tveggja tíma hol á hefðbundinni þorskslóð vestarlega á Selvogsbanka en afraksturinn var átta tonn af ýsu. Ég er sammála því að ýsan sé mjög dreifð yfir veiðisvæðið og það er greinilega mikið af henni,” segir Magnús Kristjánsson.

Það er ekkert hlé gert á veiðum togaranna þótt páskahátíðin fari í hönd og Akurey fer í næstu veiðiferð annað kvöld.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir