FréttirSkrá á póstlista

31.03.2020

Ýsa kemur alls staðar með sem aukaafli

,,Aflabrögðin hafa verið upp og ofan. Ufsinn hefur verið brellinn eins og svo oft áður. Okkur hefur gengið vel í að forðast þorskinn en hið sama verður ekki sagt um ýsuna. Hún kemur alls staðar með sem aukaafli,” segir Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli), skipstjóri á ísfisktogaranum Viðey RE.

Viðey er nú í höfn í Reykjavík og hefur verið ákveðið að skipið fari ekki aftur til veiða fyrr en á þriðjudag í næstu viku. Að sögn Ella er langur og leiðinlegur vetur senn að baki.

,,Það er s.s. ekki hægt að kvarta yfir tíðarfarinu síðustu daga eða vikur en stórviðrin í janúar og febrúar voru mjög slítandi,” segir Elli en hann segist mest hafa haldið sig sunnan og suðvestan við Reykjanes í nýafstaðinni veiðiferð. Aflinn var um 160 tonn og það var vöntun á ufsa sem kom í veg fyrir fullfermi.

,,Ufsinn er bara svona. Hann kemur og fer. Það er komið vertíðaryfirbragð á miðunum og þorskurinn hefur ekki verið til vandræða. Hið sama verður ekki sagt um ýsuna. Hún er mjög dreifð og það er sama hvar borið er niður, ýsan kemur alltaf með sem aukaafli. Við forðumst þekkt ýsusvæði en það er sama hvað reynt er, alltaf kemur upp ýsa í bland við annan afla. Magnið í hvert sinn er ekki mikið en það telur ef maður fær hálft til heilt tonn í holi. Ég held að við höfum verið með ríflega 20 tonn af ýsu í síðasta túr en það var allt annað á dagskránni hjá okkur en að veiða ýsu.”

Að sögn Ella hefur tekist að halda Covid-19 veirunni frá áhöfninni, þökk sé markvissum aðgerðum útgerðarinnar.

,,Það eru alls konar pestir að ganga um þessar mundir og ef menn eru eitthvað slappir þá fara þeir ekki um borð. Okkur hefur blessunarlega tekist að halda þessari veiru frá skipinu og vonandi verður svo áfram,” segir Jóhannes Ellert Eiríksson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir