FréttirSkrá á póstlista

18.03.2020

Góð veiði á heimamiðum

Ísfisktogarinn Helga María AK er nú á leiðinni á miðin eftir að hafa komið með fullfermi til hafnar í Reykjavík sl. mánudag. Að sögn skipstjórans, Friðleifs Einarssonar, var afli upp úr sjó um 200 tonn.

,,Það hefur gengið vel hjá okkur í síðustu túrum og ég er ekki frá því að það sé kominn vottur af vertíðarstemingu hér suðvestanlands,” sagði Leifur en hann sagði stefnuna hafa verið setta á Fjöllin þar sem hann er á heimavelli.

,,Áherslan er lögð á ufsaveiðar en það á eftir að koma í ljós hvernig þær veiðar munu ganga. Við höfum oft fengið ágætan ufsaafla á Fjöllunum og víðar á þessum árstíma og vonandi verður aflinn ekki síðri núna,” segir Leifur. 

Um fátt er meira talað þessa dagana en Covid 19 veiruna og áhrif hennar á atvinnulífið. Leifur segir að áhöfn hans hafi sem betur fer sloppið við þessa óværu en allur sé varinn góður.

,,Menn skilja alvarleika málsins og við fylgjum ströngum leiðbeingum útgerðarinnar og sérfræðinga,” sagði Friðleifur Einarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir