FréttirSkrá á póstlista

06.02.2020

Sala á afurðum og innri verðlagning uppsjávarfisks

Undanfarnar vikur hafa komið fram harðar ásakanir um að verðlagning á uppsjávarfiski sem landað er til eigin vinnslu sé röng. Sérstaka athygli hefur fengið verðlagning á makríl og umræða um að sjávarútvegsfyrirtæki séu að selja afurðir til erlendra dótturfyrirtækja á undirverði. Brim hf. er skráð fyrirtæki á verðbréfamarkaði með um 900 hluthafa og hefur því undirgengist víðtækar skyldur um upplýsingagjöf. Ásakanir um að ekki sé eðlilega að málum staðið og gegnsæi vanti, meðal annars frá forystumönnum verkalýðsfélaga starfsmanna okkar, eru þess eðlis að við teljum rétt að upplýsa okkar starfsfólk, eigendur og aðra hvernig þessum málum er háttað í tilfelli Brims hf.

 

Verðlagning uppsjávarfisks

Þegar makríl er landað úr skipum Brims hf. til vinnslu á Vopnafirði þá fer hann til vinnslu í frystingu og bræðslu. Eftir vinnslu aflans eru afurðirnar seldar til erlendra kaupenda næstu mánuði eftir löndun. Liðið geta allt að 12 mánuðir frá löndun til sölu á afurðunum. Við verðlagningu uppsjávaraflans til skipsins hefur í mörg ár verið miðað við um 33% af áætluðu skilaverði á Íslandi sem fæst fyrir frystar afurðir og 55% af skilaverði bræðsluafurða. Í flestum tilfellum er verið að selja afurðirnar löngu eftir löndun, endanlegt söluverð liggur því ekki alltaf fyrir og er þá miðað við áætlað skilaverð út frá væntingum til verðs á mörkuðum. Þetta gerir það að verkum að sum árin er þetta hlutfall hærra og önnur ár er það lægra. Hlutfallið hjá Brim hf. er að meðaltali 33,2% í frystingu og 55,3% í bræðslu árin 2012-2018 en þá er ekki tekið tillit til sölukostnaðar innan félagsins sem myndi hækka þetta hlutfall. Brim hf. hefur þá stefnu að verð til uppsjávarskipa félagsins laði til okkar góða sjómenn með góð laun jafnframt því að tryggja rekstrargrundvöll allra rekstrareininga; skipa, fiskvinnslu og bræðslu. Þessi stefna í verðlagningu hefur því stutt við endurnýjun uppsjávarflotans og stöðugar endurbætur á starfsemi félagsins á Vopnafirði. Sjómenn uppsjávarskipa hafa síðustu ár verið tekjuhæstu sjómenn Brims sé horft á hásetahlut á úthaldsdag eða með að meðaltali 135 þúsund krónur á úthaldsdag árin 2016-2019 án orlofs. Meðal hásetahlutur á makrílvertíðum árin 2016-2019 var um 170 þúsund krónur á úthaldsdag án orlofs. Þessir sjómenn Brims hf. eru vel að laununum komnir og þeir hafa ekki verið sviknir.

 

Sala til erlendra dótturfyrirtækja

Í dag á Brim hf. þrjú erlend dótturfyrirtæki sem öllu eru í Asíu. Sala Brims hf. til þeirra á árinu 2019 var 11,6 milljónir evra sem er tæplega 5,5% af heildarsölu Brims hf. og þar af var sala á uppsjávarfisk 2,6 milljónum evra sem er 6,9% af heildar sölu frystra uppsjávarafurða. Auk þessa selur Brim hf. hráefni til tveggja dótturfyrirtækja á Akranesi sem nemur um 1,9% af heildar afurðasölu. Öll þessi viðskipti eru framkvæmd í samræmi við lög og reglugerðir um milliverðlagningu í viðskiptum tengdra lögaðila. Fyrir árið 2019 seldi Brim hf. ekki neinar afurðir til erlendra dótturfélaga og/eða tengdra lögaðila erlendis. Af þessu ætti það að liggja ljóst fyrir að Brim hf. selur ekki afurðir á undirverði til tengdra aðila.

 

Starfsánægja okkar frábæra starfsfólks til sjós og lands skiptir Brim hf. öllu máli og tekur félagið því alvarlega þá gagnrýni og óánægju sem komið hefur fram hjá forystumönnum sumra verkalýðsfélaga okkar starfsmanna. Það er því von okkar að með þessum stutta texta vörpum við ljósi á það hvaða vinnulagi við beitum í þeim málum sem helst hafa verið gagnrýnd.

Með vinsemd og virðingu
Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri

Nýjustu fréttir

Allar fréttir