FréttirSkrá á póstlista

29.01.2020

Brim, tölvusjón og sjálfbærni

Vitinn, hugmyndasamkeppni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Háskólans í Reykjavík, fór fram síðastliðna helgi. Að þessu sinni lagði Brim til raunverkefni sem nemendur unnu með . Átta lið tóku þátt, úr hinum ýmsu deildum skólans, sem er metþáttaka en samkeppnin var fyrst haldin árið 2015.

Brim lagði til verkefni er sneri að markaðssetningu á vörum fyrirtækisins á Bandaríkjamarkaði og hversu þungt vægi sjálfbærni hefur á neyslu fiskafurða hjá bandarískum neytendum.
Sólveig Arna Jóhannesdóttir, markaðsstjóri Brim, hélt erindi um fyrirtækið og kynnti umhverfisáherslur starfseminnar.

Á heimasíðu HR segir: ,,Sigurlið Vitans - hugmyndakeppni sjávarútvegsins , sem fór fram um helgina, leggur til að Brim leggi áherslu á sjálfbærni íslenskra fiskveiða í markaðssetningu á íslenskum þorski í Bandaríkjunum. Í sigurtillögunum er lagt til að lögð verði áhersla á markaðssetningu til ungra og vel stæðra kvenna í Maine og Massachusetts, undir vörumerkinu Bára, enda sýni rannsóknir að konur taki ákvarðanir um kaup á neytendavörum í 85% tilfella. Í markaðsskilaboðum verði lögð áhersla á heilsu, uppruna og auðvelda matreiðslu, auk sjálfbærni. Einnig leggur liðið til að tölvusjón verði notuð til að greina jafnóðum fisk sem kemur í veiðarfæri og að vélnám verði notað á gögn úr skynjurum sem notaðir eru við veiðar, til að bæta orkunotkun. Þannig megi draga úr olíunotkun, stytta veiðitíma og minnka umhverfisáhrif veiða.”

Úrslit Vitans, sem áður gekk undir nafninu Hnakkaþon, voru kynnt í HR s.l. laugardag. Sigurliðið mun heimsækja Seafood Expo North America, stærstu sjávarútvegssýninguna vestanhafs, í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Sigurliðið skipa Anton Björn Sigmarsson, Brynja Dagmar Jakobsdóttir, Kristín Sóley K. Ingvarsdóttir og Zoë Vala Sands.

Dómnefndina skipuðu:

  • Ari K. Jónsson, rektor HR
  • Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS
  • Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Brims
  • Magnús Þorlákur Lúðvíksson, forstöðumaður viðskiptaþróunar Icelandair
  • Valdimar Sigurðsson, prófessor við viðskiptadeild HR

Á myndinni eru sigurliðið og dómnefnd.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir