FréttirSkrá á póstlista

15.01.2020

Frábært ár að baki hjá Viðey RE

Heildarafli ísfisktogarans Viðeyjar RE á síðasta ári nam 10.177 tonnum. Þetta er í fyrsta skipti sem ísfisktogari nær þessu takmarki en auk Viðeyjar náði Björg EA að fiska meira en 10.000 tonn. Að sögn Jóhannesar Ellerts Eiríkssonar (Ella) skipstjóra voru veiðiferðir ársins 57 talsins en það þýðir að meðalafli í túr var um 180 tonn. Ekki slæmt hjá skipi sem lestar að hámarki 190 til 200 tonn af fiski.

,,Síðasta ár var vissulega gott en það er ekki hægt að segja að byrjunin á þessu sé uppörvandi. Það er stöðugt óveður, jafnt til sjávar og sveita,“ segir Elli en hann var að koma í land úr öðrum túr ársins.

,,Það var foráttuveður allan tímann og ekki fært norður á Vestfjarðamið sökum veðurs. Við héldum okkur því á SV miðum í vari fyrir mestu NA áttinni. Markmiðið var að veiða sem mest af ufsa en ufsinn var ekki mættur á miðin og því fengum við aðallega gullkarfa. Afraksturinn er um 100 tonn. Það er ekki mikið en í ljósi aðstæðna ber manni að þakka fyrir,“ segir Jóhannes Ellert Eiríksson.

Stefnt er að því að skipið fari aftur á sjó í kvöld.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir