FréttirSkrá á póstlista

21.12.2019

Velheppnaðar jólaveislur starfsmanna Brims

Efnt var til jólaveisla í starfsstöðvum Brims fyrir starfsmenn félagsins nú á aðventunni og tókust veislurnar vel að vanda. Samkvæmt lauslegri athugun tóku alls tæplega 500 manns þátt í veislunum að þessu sinni en Brim er með starfsstöðvar í Reykjavík, á Akranesi og Vopnafirði.

Stærsta starfsstöðin er í Reykjavík en sá háttur hefur verið hafður á að starfsmenn hittast í mötuneytinu í Norðurgarði.

,,Þetta var hefðbundið hjá okkur. Um 270 manns mættu og tóku hraustlega til matar síns,“ segir Kristjana Björk Magnúsdóttir sem var ein þeirra sem skipulögðu veisluna. Kristjana segir að maturinn hafi verið hefðbundinn jólamatur.

,,Í forrétt voru ýmiss konar síldarréttir og andapaté. Í aðalrétt voru svo hangilæri með uppstúf og hamborgarhryggur með brúnuðum kartöflum og öðru meðlæti. Laufabrauð var einnig á borðum og boðið var upp á kaffi og konfekt í lokin. Við fengum Guðmund Reyni Gunnarsson til að leika jólalög á píanó á meðan setið var til borðs. Þetta tókst vel og var hátíðleg stund,” segir Kristjana Björk Magnúsdóttir.


Á Akranesi starfrækir Brim fiskmjölsverksmiðju, niðurlagningarfyrirtækið Vigni G. Jónsson og Norðanfisk en það fyrirtæki framleiðir tilbúna fiskrétti.


Það má segja að starfsmenn Norðanfisks hafi riðið á vaðið því þar var jólaveislan haldin sl. föstudag.


,,Jólaveislan var hjá okkur föstudaginn 13.desember. Mæting var góð eða tæplega 40 manns. Í boði var hunangsskinka með tilheyrandi meðlæti og ístertu í eftirrétt. Hjá okkur koma allir með einn pakka og við skiptumst á gjöfum og höfum gaman,“ segir Elva Jóna Gylfadóttir hjá Norðanfiski.


Það hefur verið í nógu að snúast hjá starfsmönnum Vignis G. Jónssonar eins og Ólöf Linda Ólafsdóttir útskýrir.


,,Við byrjuðum á að halda föndurdag þann 12. desember sl. en þá hittumst við í fyrirtækinu með börnin okkar. Þar var föndrað og farið í leiki. Við hittum einnig jólasveina og fengum heitt kakó og smákökur. Daginn eftir vorum við með skötuveislu og buðum þá starfsmönnum Brims á verkstæðinu og í fiskmjölsverksmiðjunni að vera með okkur. Þeir komu einnig í jólaveisluna, sem haldin var sl. þriðjudag, hér í húsnæði fyrirtækisins. Við áætlum að um 65 manns hafi verið í matnum” segir Ólöf Linda en að hennar sögn voru jólagjafir Brims til starfsmanna afhentar við þetta tækifæri.


,,Við höfum einnig verið með leynivinaleik innan fyrirtækisins sem vakið hefur mikla lukku og spennu,” sagði Ólöf Linda Ólafsdóttir.

Jólaveislan á Vopnafirði fór fram sl. mánudag, með örlítið breyttu sniði að sögn Fanneyjar Bjarkar Friðriksdóttur. Hún áætlar að um 75 manns hafi tekið þátt í veislunni að þessu sinni.

,,Starfsmenn gátu tekið fjölskyldur sínar með í smá jólastemmingu, jólaföndur, leiki og notalega jólasamverustund. Við byrjuðum í kaffistofunni í bolfiskvinnsluhúsinu og færðum okkur svo yfir á Hótel Tanga í jólaveisluna. Þar var borðaður hefðbundinn jólamatur auk þess sem boðið var upp á jólasíld, lax og graflax, hinar ýmsu tengundir af Pate og fleira, ásamt pizzum fyrir börnin,” segir Fanney Björk Friðriksdóttir.

 


Fleiri myndir með frétt

Nýjustu fréttir

Allar fréttir