FréttirSkrá á póstlista

12.11.2019

Mjög rólegt á Vestfjarðamiðum

,,Við erum núna á Fjöllunum og komum hingað frá Vestfjarðamiðum. Aflabrögð eru þar mjög róleg þessa stundina og það má segja að við séum að bjarga túrum hér fyrir sunnan,” sagði Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK, er rætt var við hann eftir hádegi í gær. Togarinn kom til hafnar í Reykjavík í morgun.

Leifur segir að veiðiferðin hafi hafist með því að siglt var norður á Vestfjarðamið með það að leiðarljósi að veiða fyrst og fremst þorsk.

,,Það kom sæmilegt þorskskot í veiða fyrir vestan um daginn en við vorum þá í landi. Svo var veiðin dottin niður þegar við komum á miðin og það hefur verið hálfgerður barningur að fá einhvern afla,” segir Leifur en hann upplýsir að slæm veðurspá á Vestfjörðum hafi valdið því að hann ákvað að sigla suður í stað þess að enda túrinn á karfaveiðum í Víkurálnum.

Að sögn Leifs hafa togararnir leitað austur að SA-landi og veitt þar þorsk en veiðin datt svo niður og Leifur segir að ekki sé á vísan að róa frekar en á Vestfjarðamiðum þessa dagana.

,,Það kom reyndar gott þorskskot fyrir austan um daginn en veiðin stóð stutt. Nú vonar maður bara að ufsinn og karfinn séu á sínum stað hér á Fjöllunum og ef það reynist svo þá fáum við afla,” segir Friðleifur Einarsson en þess má geta að aflinn á Vestfjarðamiðum var um 80 tonn.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir