FréttirSkrá á póstlista

23.09.2019

Síldveiðar fara vel af stað

Von var á Venusi NS til Vopnafjarðar með 1.260 tonn af síld nú síðdegis. Síldin fékkst í fjórum holum á um sólarhring í Héraðsflóadjúpi en frá veiðisvæðinu er um fimm tíma sigling til Vopnafjarðar.

Bergur Einarsson skipstjóri á Venusi er ánægður með byrjun síldveiðanna.

,,Þetta er okkar annar hreini síldveiðitúr en fyrir helgina vorum við á Vopnafirði með 1.360 tonna afla. Við byrjuðum reyndar á um 600 tonnum af síld sem við fengum í lok makrílveiðiferðar þannig að við erum alls komnir með um 3.200 tonn af síld.“

Að sögn Bergs átti hann allt eins von á því að síldin væri gengin út úr Héraðsflóanum og það hafi því komið þægilega á óvart að þar hafi verið mikið af síld er Venus kom á miðin.

,,Það er eins og síldin hafi gengið út í kantinn og snúið þar við í stað þess að ganga lengra út á djúpið. Þetta er allt rígvæn síld og hentar mjög vel til vinnslu,“ segir Bergur Einarsson.

Notuð eru tvö troll um borð í Venusi. Þar af er annað nýtt 2048 Gloríu Helix síldarflottroll af svokallaðaðri 2019 útfærslu. Hefur það reynst vel á síldveiðum Venusar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir