FréttirSkrá á póstlista

20.09.2019

Gott á Fjöllunum en barningur á Vestfjarðamiðum

,,Við höfum verið í sæmilegu ýsukroppi á Hornbanka og í Reykjafjarðarál en annars hefur þetta verið óttalegur barningur hér á Vestfjarðamiðum. Við byrjuðum túrinn á Fjöllunum fyrir suðvestan land og þar var góð gullkarfa- og ufsaveiði,“ segir Friðrik Ingason sem nú er skipstjóri á frystitorgaranum Höfrungi III AK.

Höfrungur III lagði upp  í veiðiferðina 1. september sl. og var skipið að veiðum fyrstu tæpu vikuna á Fjöllunum.

,,Aflinn var fínn og við millilönduðum um 200 tonnum af fiski upp úr sjó þann 8. september. Við fórum svo á Vestfjarðamið, litum á Víkurálinn og þræddum síðan kantinn norðaustur á Halamið. Þar gaf ufsi sig til en bara í nokkra tíma snemma á morgnana. Þar, sem við höfum verið, var lítið af þorski og menn virðast eiga í erfiðleikum með að finna þorsk í augnablikinu, sama hvort þeir séu hér fyrir vestan, norðan land eða austan,“ segir Friðrik Ingason.

Um vika er nú eftir af veiðiferð Höfrungs III og býst Friðrik með að skipið verði áfram á Vestfjarðamiðum þar til að haldið verður til hafnar í Reykjavík.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir