FréttirSkrá á póstlista

13.06.2019

Skýrsla um ófjárhagslega þætti kortleggur áhrif og ábyrgð HB Granda

Sífellt fleiri íslensk fyrirtæki gefa út samfélagsskýrslu þar sem þau, með skipulögðum hætti, gera grein fyrir ófjárhagslegum þáttum í starfsemi sinni.

HB Grandi hf. hefur verið í fararbroddi sjávarútvegsfyrirtækja hér á landi með útgáfu á ársskýrslu um samfélagsábyrgð en hún gefin var út í fyrsta skipti fyrir árið 2017.

Innan HB Granda hefur byggst upp mikil þekking á málefnum samfélagsábyrgðar og undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að kortleggja áhrif og ábyrgð félagsins. Samfélagsskýrslan er unnin samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative, G4 sem er alþjóðlegur staðall.

Af hverju samfélagsskýrsla?

Árið 2016 var fest í lög á Íslandi að stór fyrirtæki verða að birta upplýsingar um umhverfis- og félagsleg áhrif sín í ársreikningum. Slík lög hafa verið í gildi í nokkur ár á Norðurlöndunum og verða innleidd í löndum ESB samkvæmt tilskipun ESB frá árinu 2014.

Auk þess er aukin krafa frá fjáfestum og samfélaginu um að félög geri grein fyrir ófjáhagslegum þætti starfsemi sinnar. HB Grandi er í hópi sífellt fleiri íslenskra félaga þar sem samfélagsskýrsla er orðin hluti af starfseminni. Þar má nefna; Alcoa Fjarðarál, Marel, Arion Banka, Ölgerðina Egill Skallagrímsson og mörg fleiri.

Félög skráð hjá Nasdaq Nordic eru hvött til að birta ESG (Economic, Social, Governance) upplýsingar en ekki er um skyldu að ræða.

HB Grandi er matvælaframleiðslufyrirtæki sem selur afurðir sínar, sem unnar eru úr villtum fiski, á kröfuharða markaði um allan heim og kaupendur gera sífellt harðari kröfur um að fá að vita meira um fyrirtækin sem þeir kaupa vörur af. Þeir vilja m.a. vita:

  • Hvernig fyrirtækið kemur fram við starfsmenn sína
  • Hvort fyrirtækið hagi rekstrinum í sátt við samfélagið, þar sem það starfar.
  • Hvort fyrirtækið sé ábyrgt í umhverfismálum og í umgengni sinni við náttúruauðlindir.

Kröfur kaupenda eiga eftir að verða enn fyrirferðarmeiri í framtíðinni og því mun frammistaða fyrirtækja á sviði samfélagsmála skipta sífellt meira máli. Samfélagsskýrslan er kjörinn vettvangur til að varpa ljósi á það sem vel er gert og hvað má betur fara. Síðast en ekki síst má sjá í skýrslunni hverju fyrirtækið hefur áorkað á árinu og að hverju er stefnt á því næsta.

Samfélagsskýrsla HB Granda 2018 var gefin út samhliða ársskýrslu á aðalfundi félagsins í lok mars. Skýrslan er öllum aðgengileg á heimasíðu félagsins bæði á íslensku og ensku. Hún er yfirgripsmikil og þar er m.a. annars fjallað um stefnumörkun félagsins og framtíðarsýn og sagt frá helstu viðburðum rekstursins á árinu, samstarfsverkefnum og nýsköpun. Vert er að benda á kaflann, Starfsmannamál. Þar má finna starfsmannastefnu félagsins, umfjöllun um öryggismál og þróun þeirra, persónuvernd, jafnlaunavottun, kynjahlutfall, fræðslu starfsmanna o.fl. Gæðamálum eru að sjálfsögðu gerð ítarleg skil og tilgreint hvernig til hefur tekist á árinu.

Í kaflanum Efnahagur má sjá skattspor HB Granda, innkaupastefnu, fjárfestingar í innviðum og þjónustu samfélagsins svo eitthvað sé nefnt.

Einn veigamesti hluti samfélagsskýrslunnar fjallar um umhverfismál og þar er þungamiðjan umhverfisuppgjör félagsins og CO2 losun frá starfseminni. HB Grandi hefur verið með umhverfisuppgjör frá árinu 2015 og í umhverfisuppgjörinu má sjá hvernig þróunin hefur verið frá einu ári til annars.

Fyrir HB Granda er samfélagsskýrslan mikilvægt tæki fyrir stjórnendur til að taka ákvarðanir í samræmi við stefnu fyrirtækis og væntingar eiganda, viðskiptamanna og samfélagsins alls. Skýr markmið á sviði umhverfismála og skilningur á mikilvægi þeirra er samfélaginu öllu til heilla.

Samfélagsskýrslur HB Granda er að finna á síðu HB Granda, https://hbgrandi.is 

 

Torfi Þ. Þorsteinsson
forstöðumaður samfélagstengsla HB Granda
 

Greinin birtist í Kompás, málgagni útskriftarnema skipstjórnarskólans. 41. árgangur 2019 
https://issuu.com/eeoghan/docs/komp_s__tgafa_2019_issuu

 

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir