FréttirSkrá á póstlista

17.05.2019

HB Grandi er einn af bakhjörlum Hátíðar hafsins í Reykjavík

Hátíð hafsins í Reykjavík verður haldin helgina 1. - 2. júní 2019 og verður hún með allra glæsilegasta móti. Að hátíðinni standa Faxaflóahafnir, Sjómannadagsráð og HB Grandi en þessir aðilar hafa gert samning sín á milli um að standa veglega að baki hátíðarinnar í ár. Concept Events mun sjá um framkvæmd hátíðarinnar en Dagmar Haraldsdóttir eigandi þess hefur séð um framkvæmd hátíðarinnar frá árinu 2013.

Hátíðin samanstendur af tveimur hátíðardögum, þ.e. hafnardeginum sem er á laugardeginum og Sjómannadeginum sem er á sunnudeginum og hefur verið haldin sem slík síðan árið 2002. Hátíð hafsins hefur náð að vaxa og dafna undanfarin ár og er nú orðin ein af stærri hátíðum Reykjavíkurborgar en rúmlega 40.000 manns lögðu leið sína niður að höfninni í fyrrasumar.

Hátíðarsvæðið nær frá Hörpu, um Gömlu höfnina, út á Grandagarð og að HB Granda. Það verður mikið um að vera báða dagana fyrir alla aldurshópa. Á sunnudeginum verður dagskrá fyrir yngstu kynslóðina við HB Granda og á sviðinu mætir m.a. leikhópurinn Lotta, Latibær og Lína Langsokkur ásamt Mc Gauta. Einar Mikael töframaður mun stjórna dagskránni og Sirkus Ísland skemmtir gestum. Einnig verður boðið upp á skoðunarferðir um borð í togara.

Hátíðin er í samstarfi við Umhverfisstofnun sem fræðir gesti m.a. um hafið og umhverfi þess. Hafró heldur utan um hina svokölluðu Furðurfiskasýningu en þar er að finna alla helstu nytjafiska sem lifa umhverfis Ísland. 

Þá viljum við leggja áherslu á að hátíðin reyni að temja sér umhverfisvæn markmið og því verður ekki leyft að vera með blöðrur á svæðinu, nota plastílát sem minnst nema hægt sé að endurnýta þau og einnig stefnum við á að flokka allt rusl meðan á hátíðinni stendur. Fjöldi annarra skipulagðra viðburða verða í gangi alla helgina.

Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna inn á www.hatidhafsins.is

Nýjustu fréttir

Allar fréttir