FréttirSkrá á póstlista

29.03.2019

Ágætur afli þá daga sem vel viðrar

Frystitogarinn Höfrungur III AK kom til hafnar í Reykjavík snemma í morgun eftir fjögurra vikna veiðiferð. Heildaraflinn í veiðiferðinni var um 860 tonn upp úr sjó eða ríflega 540 tonn af afurðum. Togarinn kom einu sinni inn til millilöndunar á þessu tímabili en það var 12. mars sl.

,,Þetta var ósköp hefðbundinn túr að öðru leyti en því að það hefur verið óslitin ótíð síðustu tíu dagana. Það veiddist ekki mikið þessa daga og sl. miðvikudag lónuðum við t.a.m. bara um án þess að setja trollið út. Veðrið gekk svo heldur niður með nóttinni en í gær var svo aftur komið vitlaust veður með meira en 20 m/sek. Maður finnur að svona langur óveðurskafli fer illa með menn,“ segir Haraldur Árnason skipstjóri.

Að sögn Haraldar var skipið allan tímann á suðvesturmiðum.

,,Það var minna um þorsk en ég átti von á og hið sama má eiginlega segja um ufsann. Þorskurinn hefði átt að skila sér á Tána á utanverðum Selvogsbanka en það gerði hann ekki í neinum mæli. Við fengum hins vegar þorsk á Eldeyjarbankanum og í Jökuldjúpinu og þar var einnig ufsi og ýsa. Göngumynstur þorsksins virðist hafa breyst og menn velta því fyrir sér hvort það sé vegna loðnunnar eða réttara sagt vegna skorts á loðnu fyrir sunnan og vestan landið.“

Haraldur segir að togararnir að norðan hafi sótt talsvert á suðvesturmið og þá einkum í Jökuldjúpið lengst af þessum mánuði en þeir séu nú aftur farnir norður.

,,Togarar eins og Gullver NS og Ljósafell SU, sem mest hafa verið á þorskveiðum, hafa hins vegar ekki sést hér fyrir vestan. Það stafar væntanlega af því að það hefur verið góð þorskveiði fyrir austan,“ segir Haraldur en hann segir að það geti einnig fælt menn frá suðvesturmiðum ef gullkarfakvóti skipanna sé ekki nægur.

,,Hér er nóg af gullkarfa og það háir mörgum hve gullkarfinn er víða. Hins vegar er erfitt að fá djúpkarfa,“ segir Haraldur Árnason.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir