FréttirSkrá á póstlista

11.03.2019

Bíða af sér óveðrið

Sex íslensk uppsjávarveiðiskip leituðu í gær vars inni á Donegalflóa en óveður geisar nú á kolmunnamiðunum vestur af Írlandi. Að sögn Theódórs Þórðarsonar, skipstjóra á Venusi NS, er veðurútlit slæmt og ekki horfur á að óveðrið gangi niður fyrr en á föstudag.

,,Það er búið að vera leiðindaveður og það var bræla á miðunum þegar við komum. Þrátt fyrir það náðum við einu góðu holi, 440 tonnum, en það var mun minni afli í næsta holi á eftir. Eftir að veðrið versnaði var ekki um annað að ræða en leita vars og við komum inn á flóann í gær. Upphaflega ætlum við til hafnar í Killybegs en þar var allt fullt og því leituðum við var inni á Donegalflóa. Í raun var ekki um annað að ræða því auk brælunnar er sjólag mjög slæmt þarna úti og tvö íslensku skipanna höfðu fengið slæm brot á sig,“ segir Theódór.

Að þessu sinni var Venus að veiðum töluvert norðar en kolmunnaveiðarnar byrjuðu á. Fiskurinn hrygnir suður og suðvestur af Írlandi og gengur svo norður í ætisleit.

,,Við þekkjum lítið til veiða á kolunna á þessum tíma enda höfum við verið á loðnuveiðum í febrúar og fram í mars. Við höfum svo farið til kolmunnaveiða og undanfarin tvö ár hefur botninn dottið úr veiðunum vestur af Írlandi 18. til 20. mars. Vonandi verður breyting á í ár og við ættum að komast aftur á miðin á fimmtudagskvöld eða á föstudag,“ sagði Theódór Þórðarson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir