FréttirSkrá á póstlista

24.01.2019

„Það var gaman“

Svavar Svavarsson hefur í fjóra áratugi brimað öldufald breytinga í íslenskum sjávarútvegi. Fyrst í framleiðslustýringu og aukinni sjálfvirkni í vinnslu sjávarafurða, síðan í sölu- og markaðsmálum eftir upplausn sölusamtakanna og nú síðast hefur hann glímt við áskoranir í umhverfismálum. Það lýsir jákvæðum lífsviðhorfum Svavars að þegar hann, í tilefni starfsloka hjá HB Granda, rifjar upp atið og rimmurnar þá er viðkvæðið alltaf á sömu leið: „Já, það var nú ansi gaman að fást við það.“

„Það blundaði í mér allt frá barnæsku að fara í eitthvað svona“, svarar Svavar þegar hann er inntur eftir því hvað olli að hann fór að vinna í fiski. Svavar var alinn upp í Kleppsholtinu sem þá var í jaðri Reykjavíkur og var búinn að stunda eftirsótta innivinnu bæði í Veðdeild og aðalbanka Landsbankans í sjö ár þegar hann einhenti sér í sjávarútveginn. „Ég hafði alltaf gaman af því að vera nærri þessum fyrirtækjum niðrí bæ. Var sendill hjá Natan Olsen á Vesturgötu 2 frá því ég var tíu ára og fann mig í að skreppa í tollinn og bankann og rukka útum allan bæ. Og þá fannst mér mikið til þess koma að ganga upp sorfnar trétröppurnar í stiganum upp á skrifstofuna hjá Silla og Valda í Aðalstræti þegar ég var að rukka þá.“ Þar var Svavar að ganga í spor athafnamanna sem í um tvær aldir höfðu allt frá tímum Innréttinga Skúla Magnússonar átt erindi í þetta hús sem hafði leikið mikilvægt hlutverk í atvinnu og viðskiptalífi Reykjavíkur.

Atorka Svavars og dugnaður sá til þess að honum féll aldrei verk úr hendi. Hann var í bréfaskólum í bókfærslu og verslunarfræðum með vinnu í Landsbankanum milli þess sem hann hljóp í afleysingar við næturvörslu í bankanum. Eitt vorið þegar opnaðist glufa tók hann á leigu spildu lands upp á Kjalarnesi og fyrr en varði var hann kominn með 8 tonn af útsæðiskartöflum heim á Dyngjuveg þar sem þær voru látnar spíra í kjallara, stofum, göngum og svefnherbergjum. Bankamaðurinn tvítugi var sumsé orðinn kartöflubóndi í hjáverkum. Þetta var sumarið 69, - eftir hvarf síldarinnar árið áður var atvinnuleysi í Reykjavík og því auglýsti hann um haustið eftir fólki til að taka upp kartöflur og að greitt yrði fyrir hvert kíló. Bílaröð myndaðist upp á Kjalarnesi, krökt var af fólki og kartöflurnar þutu upp úr garðinum. En því miður var tíðin ekki góð þetta árið og uppsprettan eftir því og kartöfluævintýrið tók meira en það gaf. Gæfan verðlaunar hina hugrökku, segir einhversstaðar. Það átti við Svavar þetta árið því um haustið vann hann bifreið í happadrætti DAS og dugði andvirði hennar fyrir kartöfluskuldunum.

Ekki aftur í bankann snúið

Svavar var kominn á bragðið – athafnaþráin varð að finna sér leið. Þegar tveir vinir báðu hann um að koma með sér í útgerð á 12 tonna trillu næsta vor – Sæfugl KE 30, gat hann ekki staðist freistinguna. Eins og hans var von og vísa, bæði fyrr og síðar, fór hann ekki að neinu óðslega. „Ég ræddi við Jóhann Ágússton, bankastjóra, áður en ég afréð með útgerðina. Hann hvatti mig til dáða og bauð mér að koma aftur færi svo að ég hætti í útgerð. Þetta skipti mig máli því ég var búinn að vinna mig þó nokkuð upp í bankanum.“ Á Svavari var það að skilja að hann hefði síður stokkið til ef hann hefði þurft að kasta frá sér öllu því sem hann hafði byggt upp í bankanum og var hann Jóhanni augljóslega þakklátur fyrir sénsinn sem hann fékk.

Svavar snéri ekki aftur til starfa í bankanum. Eftir tvær vel heppnaðar vertíðir á Sæfugli þar sem þeir félagar mokuðu upp ufsa fyrir utan Reykjanes, og síðan síldarvertíð í Norðusjó, loðnuvertíð og netavertíð fann hann að sjávarútvegurinn átti í honum taug þó svo hann hafi aldrei alveg losnað við sjóveikina. Vinnan var mikil og skemmtileg og híran var mjög góð fyrir ungan mann. Teningunum var kastað. „Einhverju sinni heyrði ég á tal skipsfélaga sem líkt og ég höfðu ekki farið í skóla á unglingsárunum og þá nefndu þeir Fiskvinnsluskólann sem þá var nýstofnaður. Hann vakti strax áhuga minn og kannaði ég fljótt hvað þar var í boði og ég bara skráði mig. Þá var ég kominn með þessa bakteríu,“ sagði Svavar og brosti.

__________

„Einhverju sinni heyrði ég á tal skipsfélaga sem líkt og ég höfðu ekki farið í skóla á unglingsárunum og þá nefndu þeir Fiskvinnsluskólann sem þá var nýstofnaður. Hann vakti strax áhuga minn og kannaði ég fljótt hvað þar var í boði og ég bara skráði mig. Þá var ég kominn með þessa bakteríu,“

__________

Skólaárin liðu hratt. „Og ég, 25 ára gamall og eldri en skólafélagarnir, hafði ekki verið í skóla í 10 ár, gleypti við náminu - var augljóslega orðinn mjög þyrstur“, segir Svavar og telur að þverfaglega námið hafi nýst mjög vel. „Við lærðum efnafræði, tölfræði og annað þvíumlíkt og kynntumst einnig vinnu vísindamanna við Rannsóknarstofnun Fiskiðnaðarins sem var í sama húsi og skólinn við Skúlagötu 4. Þá nutum við einnig leiðsagnar fagmanna sem voru á heimavelli og kenndu okkur að flaka fisk og stjórna fólki.“ Veturnir fimm voru brotnir upp með verklegu námi og vinnu í fiskvinnslu á verstöðum víða um land. „Við vorum nestuð með dagbókum, einskonar sjóferðabók, þar sem við áttum að skrá öll verk og verkefni sem við tókum okkur fyrir hendur, stór og smá. Þetta var sniðugt og kenndi okkur öguð vinnubrögð.“ Og síðan var unnið öll sumrin og þá í fiski. Hann kom víða við á skólaárunum, vann á Vopnafirði, Eskifirði, Norðurstjörnunni í Hafnarfirð og í Ísbirninum, oftar en ekki var hann kallaður til sem verkstjóri.

Farinn að hafa miklar skoðanir

„Ég var ráðinn sem verkstjóri hjá Ísbirninum á kvennafrídaginn í október 1975, þá ennþá í skóla. Þar lærði ég margt en mest þó af yfirverkstjóranum Páli Guðmundssyni sem var Verslunarskólagenginn sem ekki var algengt með starfsfólk á gólfinu í frystihúsum á þeim tíma,“ segir Svavar. Ísbjörninn var í eigu Ingvars Vilhjálmssonar, stofnanda, og fjölskyldu hans. Fjölskyldan og fyrirtækið voru eitt. „Ingvar kom þarna alltaf í hádeginu ásamt sonum sínum Jóni og Vilhjálmi og borðaði í mötuneytinu og sat með okkur Páli og fór yfir stöðu og gang mála.“ Það er ljóst að Svavar hugsar hlýtt til áranna í Ísbirninum og fólksins sem hann kynntist þar og lærði mikið af.

„Þegar ég sá auglýst í október 1977 eftir framleiðslustjóra hjá Bæjarútgerð Reykjavíku þá bara sótti ég um. Mig dauðlangaði í starfið,“ sagði Svavar en hann var þá að ljúka skólanum. Hann var þá farinn að nálgast þrítugsaldurinn og „farinn að hafa miklar skoðanir á því hverngi átti að gera hlutina“ og var því ánægður þegar honum var boðin staðan og gat farið „að gera hlutina eftir eigin höfði“. Verkefnið var ekki smátt í sniðum því starfsmenn voru yfir 300 á Grandagarði og 200 á Meistaravöllum. Eitt það fyrsta sem hann „impraði á“ við Einar Sveinsson þáverandi forstjóra hjá BÚR var að koma á bónuskerfi í fiskvinnslunni. Slíkt kerfi hafði verið lengi við lýði í Eyjum en var að koma til sögunnar á höfuðborgarsvæðinu en hann hafði kynnst því í Ísbirninum og á Eskifirði þar sem það gaf góða raun. Leitaði hann til sérfræðinga við innleiðingu hjá fyrirtækinu Rekstrartækni hf. en þar störfuðu ungir menn sem höfðu sérhæft sig í uppsetningu vinnslukerfa og komu síðar að málum í 18 frystihúsum í Reykjavík og nágrenni. Bónuskerfið náði markmiðum sínum sem var að bæta nýtingu og auka afköst og það sem var ekki síður mikilvægt að bónusinn hækkaði laun starfsfólks til muna. „Ég man að við fengum frá Vestmannaeyjum fiskverkakonur sem voru vanar bónuskerfinu, - voru kallaðar bónusdrottningar og sýndu í verki hvernig vinna átti hlutina. Oft voru þær búnar með dagsverkið fyrir hádegi.“ Framfarir urðu hraðar og dæmi voru um einstaklinga sem þrefölduðu launin sín bæði vegna aukinna afkasta og ekki síður vegna bættrar nýtingar. Svavar lítur svo á að með bónuskerfinu hafi verið stigin ein þau fyrstu skref í átt til framleiðslustýringar sem átti síðan eftir að vera leiðarljósið í íslenskum sjávarútvegi næstu tvo áratugina.

___________

Bónuskerfið náði markmiðum sínum sem var að bæta nýtingu og auka afköst og það sem var ekki síður mikilvægt að bónusinn hækkaði laun starfsfólks til muna. „Ég man að við fengum frá Vestmannaeyjum fiskverkakonur sem voru vanar bónuskerfinu, - voru kallaðar bónusdrottningar og sýndu í verki hvernig vinna átti hlutina. Oft voru þær búnar með dagsverkið fyrir hádegi.“
___________


Svavar ber forstjórum BÚR frá fyrstu árum sínum hjá fyrirtækinu vel söguna. Einar sem forstjóri vinnslu, var „gjörnýtingarmaður“ en hans naut ekki lengi við því eftir borgarstjórnarkosningar 1978 vildi nýr meirihluti vinstri manna skipta um kall í brúnni hjá Bæjarúgerðinni og var Björgvin Guðmundsson „krati“ ráðinn í stöðu forstjóra. „Ég átti líka gott með að vinna með honum og man sérstaklega eftir þegar hann fól mér að endurskipuleggja skreiðar- og saltfiskvinnsluna út á Meistaravöllum og að koma henni í bónuskerfi.“ Verkefnið gekk að óskum en það breytti ekki stóru myndinni á þessum árum. Rekstrargrundvöllur sjávarútvegs versnaði stöðugt með aukinni afkastagetu veiða og vinnslu en minnkandi afla. „Á þessum árum var verið að ganga að fiskistofnunum dauðum og tap var á rekstrinum í þokkabót. Þetta fyrirkomulag sem byggðist á stjórnlausum veiðum skapaði ástand sem var ekki skynsamlegt og menn vissu það.“

Nýir vendir – að vekja upp af vondum draum

Í kosningum 1982 fellur meirihutinn í borginni og nýr, ungur borgarstjóri, Davíð Oddsson, kallar á endurskoðun á skipulagi og rekstri BÚR. Niðurstaðan var að ráða einn forstjóra yfir bæði veiðar og vinnslu og var Brynjólfur Bjarnason, áður framkvæmdastjóri Almenna bókafélagsins, fenginn í starfið en hann var rekstrarverkfræðingur og einn af fyrstu Íslendingunum með meistaragráðu í viðskiptastjórnun frá bandarískum háskóla - MBA gráðuna. Hann hafði hins vegar aldrei unnið í fiski, sem var tákn um breytta tíma. Það var urgur í fólki útaf breytingum en Davíð mætti á fund hjá starfsmönnum og ræddi við fólk. „Leiðtogahæfileikar hans komu þarna vel í ljós. Hann fékk fólk til að líta á málin frá öðrum sjónarhól sem hafði góð áhrif á starfsandann.“

„Brynjólfur kom með nýjar áherslur sem ég hreifst af. Ný hugsun, ný orð og hugtök eins og framlegð, framleiðni, rekstraráætlanir, kostnaðarvitund og fleira úr þeirri áttinni. Hann fundaði reglulega með skipstjórum og fékk þá til að gefa upp hvað þeir gerðu ráð fyrir að fiska þannig að til urðu vikulegar og síðan mánaðarlegar framleiðsluáætlanir sem lögðu grunninn að rekstraráætlun.“ Fyrsta rekstraráætlun BÚR sem byggði á áætlaðri veiði hvers skips leit dagsins ljós fyrir árið 1984. Með þessum nýju vinnubrögðum urðu greiningar betri og hert var á allri framleiðslustýringu. „Það voru ekki bara við hjá BÚR sem fundum fyrir breytingum því áherslur Brynjólfs fóru eins og ferskur vindur um allan iðnaðinn“, sagði Svavar.

__________

„Brynjólfur kom með nýjar áherslur sem ég hreifst af. Ný hugsun, ný orð og hugtök eins og framlegð, framleiðni, rekstraráætlanir, kostnaðarvitund og fleira úr þeirri áttinni.“
__________


Nútímalegt skipulag leit dagsins ljós og var Svavar einn fjögurra framkvæmdastjóra félagins og bar ábyrgð á allri framleiðslu fyrirtækisins. Með Brynjólfi komu einnig breytt viðhorf gagnvart samskiptum við starfsfólk, fjölmiðla og almenning og réð hann Jón Hákon Magnússon, hjá KOM, til þeirra verka. Ljóst var að BÚR skipti fjölda fólks máli - bæði var það í eigu Reykjavíkurborgar og jafnframt einn fjölmennasti vinnustaður borgarinnar og því mikilvægt að huga faglega að upplýsingagjöf og umtali um félagið. Þetta átti eftir að skipta miklu máli þegar fram í sótti þegar aðstæður breyttust og segja varð upp nærri öðrum hverjum starfsmanni. „Þetta voru afskaplega erfiðir tímar,“ segir Svavar. „Ég varð að segja upp fólki sem stóð mér nærri og átti minn trúnað“ og segir hann að á allri sinni starfsævi hafi fátt tekið meira á hann andlega í þessa fjóra áratugi. „Þessi níundi áratugur var rosalega erfiður, skuldirnar miklar, offramleiðslugetan gríðarleg og því varð að grípa til niðurskurðar og uppsagna. Sjávarútvegurinn kom sér í þessar aðstæður sjálfur. Þetta var slökkvistarf og ástandið var þannig að fyrir Alþingi lá frumvarp um ríkisaðstoð við greinina og eitt sinn þurfti Reykjavíkurborg að leggja félaginu til fé fyrir olíu á togarana svo þeir kæmust á veiðar. Fram að þessu trúðu menn að allt myndi reddast eins og fyrri daginn en þarna vöknuðu menn upp við vondan draum.“

Nýtt kerfi – ný markmið

Umbreytingar í sjávarútvegi voru óhjákvæmilegar. Kvótakerfið var sett á 1984 og veiði var skorin niður og húsin fengu æ minni afla til að verka. Við þær aðstæður sameinaðist BÚR Ísbirninum og til varð Grandi árið 1985, stærsta útvegsfyrirtæki landsins – togarar samtals 10 að tölu. „Sú sameining gekk mjög vel. Eigendur Ísbjarnarins skyldu það mætavel að mikilvægt yrði að fyrirtækin rynnu vel saman. Þeir afhentu bara stjórnarteymi BÚR lyklavöldin og kvöddu en áttu áfram menn í stjórn. Brynjólfur lagði áherslu á að breytingar væru settar í ferli sem tæki tíma. Allir unnu alltaf að sama marki – aldrei við og þið, allir voru á sama báti. Þetta var farsælt og afskaplega gaman.“ Sameining Ísbjarnarins og BÚR var á sínum tíma fyrsta stóra sameining stórra fyrirtækja í sjávarútvegi en á eftir kom hrina breytinga og endurskipulagninga sem stóð fram á nýja öld.

Forystumenn félagsins höfðu framtíðarsýn fyrir Granda. Áhersla var á sérhæfingu í vinnslu en til þess að hún yrði hvað hagkvæmust varð að koma á fiskmörkuðum þar sem fyrirtæki eins og Grandi gæti selt tegundir sem fyrirtækið lagði ekki áherslu á í vinnslu og síðan keypt tegundir sem fyrirtækið gæti unnið hagkvæmar en aðrir. Brynjólfur var einn helsti hvatamaður að stofnun fiskmarkaða árið 1987 en þeir áttu eftir að hafa mikil áhrif þegar fram liðu stundir, einkum hvað varðar fyrirkomulag sölumála að mati Svavars. „Við unnum karfa í BÚR-húsinu og í Ísbjarnarhúsinu við Norðurgarð voru unnar aðrar tegundir sem við sérhæfðum okkur í. Annan fisk seldum við á uppboðsmörkuðum. Þessi sérhæfing leiddi síðan til þess að við gátum fjárfest í fiskvinnsluvélum sem hentuðu sérstaklega vinnslu á ákveðnum tegundum og þarmeð aukið hagkvæmni enn frekar. Nýtt markmið var að gera sem mest úr aflaheimildum okkar og nýta flotann og hráefnið sem best.“

Umbrot og stöðugleiki

Reykjavíkurborg undir stjórn Davíðs Oddssonar ætlaði alltaf útúr rekstri Granda og seldi hún hlut sinn undir lok níunda áratugarins. Kaupendur voru Hvalur hf, Venus hf, Hampiðjan og Sjóvá og stærstir í hópi þeirra voru Árni Vilhjálmsson og Kristján Loftsson og fjölskyldur þeirra en þeir áttu eftir að setja mikinn svip á framtíðarþróun félagsins. Fljótlega eftir aðkomu nýrra eigenda var Grandi skráð í kauphöllina – fyrst íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja en áður hafði Hraðfrystistöðin í Reykjavík sameinast Granda undir forystu Ágústar Einarssonar. Það var ákveðin lúxus að hafa þessa tvo frumkvöðla viðskiptamenntunar, þá Árna Vilhjálmsson og Ágúst Einarsson í forystu félagsins.

Á þessum tíma voru að verða talsverð umskipti í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Stjórnvöld náðu tökum á verðbólgu, samningar náðust um þjóðarsátt á vinnumarkaði, fjármagnsmarkaðir fóru að taka við sér eftir erfitt haust 1987 og stjórnvöld á Íslandi heimiluðu framsal fiskveiðiheimilda sem örvaði til mikilla muna breytingar í sjávarútvegi þar sem kvótinn fór að renna í hendur þeirra sem bjuggu til mestu verðmætin úr honum. Framundan var meiri stöðugleiki bæði í efnahagslífi og stjórnmálum en þekkst hafði í aldarfjórðung. „Þarna förum við að sjá til lands, vinnslan varð sérhæfðari og markviss og við í Granda keyptum fljótlega fyrstu flæðilínuna - fólki var fækkað og skipum fækkaði. Allt mikilvægar og nauðsynlegar breytingar. Viljinn til að breyta jókst og fjárfestingar í tækni og búnaði bæði til sjós og lands jukust allan áratuginn.“ Önnur fyrirtæki í greininni fóru sama veg; hagræðing varð í veiðum og vinnslu, aðgangur að fjármagni opnaðist með skráningu í kauphöll og fjárfesting í tækjum, tækni og ekki hvað síst í kvóta voru auknar. „Þetta var áratugur tækni- og tækjavæðingar í greininni,“ segir Svavar.

___________

„Þarna förum við að sjá til lands, vinnslan varð sérhæfðari og markviss og við í Granda keyptum fljótlega fyrstu flæðilínuna - fólki var fækkað og skipum fækkaði. Allt mikilvægar og nauðsynlegar breytingar. Viljinn til að breyta jókst og fjárfestingar í tækni og búnaði bæði til sjós og lands jukust allan áratuginn.“
___________


Það voru ekki síður fiskmarkaðarnir sem breyttu lífi og starfi framleiðslustjórans á þessum árum. „Það var nýr veruleiki að vera með tvö vinnsluhús og fullt af starfsfólki en fá ekki allan aflann til verkunar. Hluti hans fór á fiskmarkað og þangað sóttum við tegundir sem við unnum. Þá spruttu upp sjálfstæðar vinnslur sem hirtu fiskinn fyrir framan nefið á okkur og seldu framhjá sölusamtökunum sem við vorum bundin böndum. Það var skilaskilda á tilteknum vörum til sölusamtakanna – frystur fiskur til SH og saltfiskur til SÍF sem hafði lengi einkarétt á sölu á þeirri afurð. Fiskmarkaðarnir örvuðu mjög starfsemi sjálfstæðra fiskvinnslufyrirtækja sem fóru auðveldlega framhjá reglunum t.d. með því að fletja fiskinn hér á landi og flytja hann ferskan flattann til útlanda þar sem hann var saltaður og fullverkaður í saltfisk.“ Svavar telur að uppboðsmarkaðarnir hafi haft einna mest áhrif á sölusamtökin sem veiktust á þessum árum til mikilla muna eftir að sjálfstæðir framleiðendur fundu sífellt fleiri leiðir til að fara framhjá þeim og fundu þannig hærra afurðaverð. Tilvera sölusamtaka sem áttu að tryggja hærra verð til framleiðenda stóð þá augljóslega ekki á traustum fótum.

Árni Vilhjálmsson, stjórnarformaður og Brynjólfur Bjarnason, forstjóri gerðu sér mjög vel grein fyrir því umbreytingaskeiði sem sjávarútvegurinn var að ganga í gegnum og nýttu þeir góðan aðgang Granda að fjármagni í gegnum kauphöll til að styrkja félagið og búa í haginn. Grandi fjárfesti á þessum árum í allmörgum fyrirtækjum í skyldri starfsemi eins og Þormóði ramma á Siglufirði, Eskju á Eskifirði, Ísfélagi Vestmannaeyja, Gunnvöru á Ísafirði, Þorbirninum í Grindavík, HB á Akranesi og í matvælafyrirtækinu Bakkavör. Eignarhlutir voru áhrifahlutir enda vakti fyrir mönnum að stuðla að samstarfi og vera vel í stakk búnir til að takast á við breytingar eða grípa tækifæri þegar þau gæfust.

Alltaf á sínum stað þrátt fyrir umrótið

Svavar var framleiðslustjóri í öll þau 18 ár sem þeir Brynjólfur störfuðu saman í Granda en sá síðarnefndi lét af störfum 2002. Þeir höfðu fylgt fyrirtækinu í gegnum stórtækar breytingar – frá útgerð og rekstri frystihúsa yfir í hátæknivætt matvinnslufyrirtæki. Við Brynjólfi tók stjórnarformaðurinn Árni Vilhjálmsson. Svavar ber honum afar vel söguna. „Árni vann ávallt á sínum forsendum. Var alltaf á skrifstofunni. Hann var nákvæmnismaður og af honum lærði ég hvað áreiðanleiki og nákvæmni skiptir miklu máli í faglegri vinnu.“ Árni var aðeins eitt ár forstjóri en þaðan í frá var hann virkur í starfi félagsins og með daglega viðveru á skrifstofu sinni niðrá Norðurgarð. Kristján Davíðsson settist í forstjórastólinn en sat stutt því Árni og aðrir eigendur félagsins höfðu undirbúið sameiningu Granda og Haraldar Böðvarssonar á Akranesi og tók þá Sturlaugur Sturlaugsson við sem forstjóri fyrirtækisins en hann kom ofanaf Skaga. Í raun var um kaup Granda á félaginu að ræða sem félagið greiddi fyrir m.a. með bréfum sem félagið hafði eignast í öðrum hlutafélögum í sjávarútvegi. Árið var 2004 og var fyrirtækið sem Svavar Svavarsson hafði stýrt allri framleiðslu hjá í aldarfjörðung enn og aftur orðið stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og hét nú HB Grandi.

Enn ein alda breytinga og umskipta hafði riðið yfir en Svavar var sem fyrr á sínum stað. Samferðafólk Svavars kann skýringar á farsæld hans í starfi. Hann var góður yfirmaður - duglegur og ósérhlífinn og í samkiptum við fólk var hann alltaf hreinlyndur, kom beint framan að því hvort sem voru góð tíðindi eða slæm. Hann var ákveðinn og fylginn sér á vingjarnlegan hátt og þegar hann beitti sér komust hluturnir af stað. Verkefni sem voru falin Svavari voru í öruggum höndum.

Úr framleiðslu í sölu

Þegar Eggert Benedikt Guðmundsson varð forstjóri HB Granda árið 2005 urðu breytingar á högum Svavars. Eggert Benedikt hafði verið ráðinn til félagsins sem yfirmaður sölu og markaðsmála árið áður en mikil gerjun átti sér stað í þeim málaflokki eftir upplausn sölusamtakanna SH og SÍF um aldamótin. Grandi hafði tekið snemma þá ákvörðun að taka þjónustuna og söluna í sínar hendur og taka viðskiptavinina nær sér. Þar með var félagið orðið beinn þátttakandi í harðri samkeppni á alþjóðlegum markaði. Eggert Benedikt hafði þekkingu og reynslu á sviði alþjóðlegrar sölu- og markaðssetninga hjá alþjóðalega tækni- og þekkingarisanum Phillips og í krafti hennar var hann fenginn til að leiða Granda inn í nýja öld á því sviði. Svavar hafði sem framleiðslustjóri í gegnum SH og SÍF oft verið í miklum beinum samskiptum við viðskiptavinina þannig að hann þekkti vel inn á þarfir þeirra og þankagang og var þeim af góðu kunnugur. Það kom því ekki öllum í HB Granda á óvart að Eggert Benedikt biði Svavari að taka við af sér sem yfirmaður markaðs – og sölumála. Það undirstrikaði mikilvægi málaflokksins og gaf skilaboð um að framundan væri tími athafna og verka.

„Við Eggert áttum mikið saman að sælda,“ segir Svavar. „Við vorum í uppbyggingu, réðum fólk og hófum upplýsingaöflun og greiningar við að finna álitlegustu viðskiptavinina. Þá var það einnig mikilvæg spurning hvort við tækjum upp beint viðskiptasamband við endanlegan seljanda vörunnar. Það gat verið mat hverju sinni. Við skoðuðum lengi að selja beint til Aldi verslunarkeðjunnar þýsku en völdum á endanum að halda áfram samstarfi við sölufyrirtæki í Þýskalandi sem hafði í áratugi sérhæft sig í þýskum smásölukeðjum og þekkti okkur út og inn. Það samstarf var afskaplega farsælt. Í tilfelli Bofrost sem er þýskt stórfyrirtæki sem selur og dreifir inn á heimili frosnum matvælum varð niðurstaðan sú að skipta beint við það félag og gekk það alltaf vel. Í Bretlandi höfum við líka átt farsæl viðskipti við samstarfsaðila sem er birgi „fish&chips“ veitingastaða en þeir eru samtals um 11 þúsund talsins og því ekkert vit fyrir okkur að vera í sambandi við þá alla,“ segir Svavar. Hann bendir á að afurðir uppsjávarfisks séu seldar mjög víða en þó aðallega til austur Evrópu og Asíulanda en fiskmjölið og lýsið fari á fáa kaupendur mest til fiskeldis í Noregi og Færeyjum.

Traustir samstarfsaðilar á mörkuðum skipta sköpum

Það fer ekki á milli mála að Svavar telur heppilegast að hafa átt viðskipti við samstarfaðila, sem hann kýs að kalla partnera, sem eru sérfræðingar á mismunandi mörkuðum og þekkja síðan HB Granda vel, þekkja árstíðarsveiflur á Íslandi og afhendingargetu félagsins og sjá vel hvenær og hvernig framboðið mæti best eftirspurninni. Kosturinn við slíka samstarfsaðila er að þeir geta verið í jöfnum og tryggum viðskiptum við framleiðandann þó svo breytingar séu á mörkuðu. Þeim tekst gjarnan að opna nýjar dyr umleið og aðrar lokast. Svavar segir að viðskiptalöndin séu um 40 talsins, fjöldi viðskiptavina á þriðja hundrað en að þeir stærstu rétt um 20. „Vinnan hjá okkur gekk útá að finna áhugaverð lönd og sektora þ.e. hverskonar vöru og síðan finna partnerana sem við höldum okkur við. Traustið á milli okkar og partneranna skiptir öllu máli. Okkar samstarfsaðilar þurfa að vera tilbúnir að deila upplýsingum, vera traustir greiðendur og stoltir af því að breiða út boðskapinn um íslenskan uppruna og um HB Granda,“ segir Svavar.

___________

„Traustið á milli okkar og partneranna skiptir öllu máli. Okkar samsarfsaðilar þurfa að vera tilbúnir að deila upplýsingum, vera traustir greiðendur og stoltir af því að breiða út boðskapinn um íslenskan uppruna og um HB Granda,“
___________


Veigamikið verkefni hjá Svavari á þessum tíma var að finna nýja markaði. Alþjóðahagkerfið tók miklum breytingum í upphafi nýrrar aldar bæði vegna vaxtar fjármálageirans á Vesturlöndum en ekki síður vegna stóraukins hagvaxtar í Asíu og Suður Ameríku og að hluta til í Austur Evrópu. Á þessum árum var mikið talað um BRIC – löndin þar sem allt var á mikilli hreyfingu, en það er Brasilía, Rússland, Indland og Kína. HB Grandi hóf að byggja upp viðskiptasambönd í þessum löndum sem og öðrum og ferðaðist Svavar víða um þessi lönd til að finna samstarfsaðila, rækja tengsl og skilja betur viðskiptaumhverfið og viðskiptavinina. „Okkur hefur gengið mun betur í Kína en til dæmis Brasilíu og hefur það talsvert að gera með að okkur hefur tekist að finna í Kína partnera sem þekkja okkur í grunninn og treysta okkur og við treystum þeim. Þetta eru spennandi og vaxandi markaðir eins og sést á því að Kína hefur á örfáum árum orðið eitt af 5 stærstu markaðssvæðum fyrir sjávarafurðir HB Granda. Þetta er langtímaverkefni og markmið til langs tíma verða að vera skýr.“ Svavar segir að markaðsaðferðir séu allstaðar svipaðar og byggjast á tíðum heimsóknum til viðskiptavina um allan heim og þá eru kaupendur einnig duglegir að koma í heimsóknir til Íslands, sumir oft á ári. Mikið fari einnig fram á sýningum eða kaupstefnum og jafnframt eru matarkynningar mikilvægar og þá er áhrifakokkum gjarnan boðið til Íslands til að þeir skynji betur sérkenni og kosti íslenskrar sjávarafurða. „Eitt er þó mikilvægt en það er fara ekki inn á nýja markaði með lág verð. Það kann að líta vel út til skammst tíma en þegar til lengra tíma er litið kemur það alltaf í bakið á mönnum.“

Stóra áskorunin - umhverfismálin

Svavar hafði sinnt sölu- og markaðsmálum í hart nær áratug þegar nýr forstjóri, Vilhjálmur Vilhjálmsson, fór þess á leit við hann að leiða nýtt svið viðskiptaþróunar en þar féllu undir málefni dótturfélaga í Síle og umhverfismál. „Ég var nú farinn að átta mig á að ég yrði ekki markaðsstjóri félagsins þar til ég yrði sjötugur og því þóttu mér umskiptin góð. Reiknaði að vísu með að málefni félaganna í Síle myndu taka mestan tíma en annað átti eftir að koma á daginn,“ segir Svavar.

Svavar hafði eins og margir í sjávarútvegi haft hugann við umhverfismál um alllangt skeið og þá einkum í tengslum við þá sjálfbæru nýtingu auðlinda sjávar sem þróast hafði samhliða kvótakerfinu. Þegar málaflokkurinn lenti í skauti hans fór hann að finna jafnt og þétt hvað mikið var í gangi almennt í samfélaginu og í atvinnulífinu í tengslum við umhverfismálin. „Oft var leitað til okkar með að fjalla um umhverfismál í sjávarútvegi og þá fer ég að viða að mér margvíslegum upplýsingum á þessu sviði. Þetta viðfangsefni fannst mér skemmtilegt ekki síst þegar ég áttaði mig á því hversu góða sögu sjávarútvegur á Íslandi hefur að segja. Þegar ég skoðaði losun koltvísýrings sá ég að sjávarútvegur á Íslandi – ein fárra atvinnugreina, hefur dregið verulega úr henni eða um 40% miðað við árið 1990 sem er viðmiðunár í Loftlagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Það var eitt af fyrstu verkum Vilhjálms að endurnýja skipaflotann með sparneytnari skipum en áður hafði fiskmjölsverksmiðjan á Vopnafirði verið sett yfir á rafmagn í stað olíu, sú fyrsta sinnar tegundar í heimi. Frá árinu 2005 fram á síðasta ár hefur HB Grandi dregið úr losun kolvísýrings um 50%. Þetta er í raun frábær árangur á aðeins 13 árum sem á rætur sínar í þeirri hagræðingu sem átt hefur sér stað í rekstri félagsins í kjölfar sameininga við önnur félög, endurnýjunar og fækkun skipa og rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja.

___________

„Ég man einhverntíman eftir að við Vilhjálmur forstjóri höfðum verið að tala um samfélagslega ábyrgð þá kom hann inn til mín og sagði einfaldlega: „Við berum samfélagslega ábyrgð“, og þar með var tónnin sleginn.“

 ___________

 

Umræðan um umhverfismál atvinnulífsins hefur á síðasta áratug orðið hluti af víðfeðmri umræðu um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja þar sem reynt er að ná utanum öll þau áhrif sem starfsemi fyrirtækja hefur í viðbót við hin efnahags- og fjárhagslegu. Þar kemur að margvíslegum samfélagslegum þáttum á borð við jafnrétti og mannréttindi sem og umhverfismál. Samstarfsmenn Svavars til margra áratuga segja að í þessum málaflokki hafi Svavar verið á heimavelli og benda á að fyrir utan að vera alþýðumaður af holdi og blóði þá sé hann einnig hugsjónamaður og hafi alla tíð verið jafnréttissinni og langt á undan mörgum sínum kynbræðrum af sömu kynslóð í að skilja jafnréttisbaráttu kvenna. Fyrir þá sem þekktu Svavar kom það því ekki á óvart að framleiðslu- og markaðsstjórinn til 35 ára skyldi taka þessi „mjúku mál“ svo traustum tökum. „Ég man einhverntíman eftir að við Vilhjálmur forstjóri höfðum verið að tala um samfélagslega ábyrgð þá kom hann inn til mín og sagði einfaldlega: „Við berum samfélagslega ábyrgð“, og þar með var tónnin sleginn. Við gengum strax í Festu – samtök fyrirtækja um samfélagslega ábyrgð, og við vildum taka forystu í þessum málaflokki.“ HB Grandi var í hópi þeirra fyrirtækja sem fyrst skrifuðu undir yfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lámarka neikvæð áhrif á umhverfið en sú undirritun fór fram í nóvember 2015 en þá voru nær allar aðildaþjóðir Sameinuðu þjóðanna að undirrita Parísaryfirlýsinguna í loftslagsmálum í samnefndir borg.

HB Grandi í forystu

Svavar vann ítarlega greiningu á snertiflötum HB Granda við samfélag, teiknaði upp leiðir að ábyrgum fiskveiðum og greindi losun og annað. Úr varð grunnur að stefnumótun í málaflokknum. „Þetta verður bara gaman,“ hugsaði ég,“ segir Svavar. „Ég vildi að við myndum byrja á einhverju áþreifanlegu, sýnilegu og einhverju sem allir þekktu. Því varð sorpið fyrst fyrir valinu – að flokka, endurvinna eða með öðrum hætti að breyta aftur í verðmæti.“ Svavar segir að HB Grandi hafi verið heppið að komast í samstarf á þessum vettvangi við fyrirtækið Klappir grænar lausnir hf. sem hefur mikla þekkingu og skilning á umhverfismálum og þróar hugbúnað til að mæla og greina umhverfisáhrif og leggja grunn að umhverfisuppgjöri og skýrslum um samfélagslega ábyrgð. „Þar var fólk með 20 – 30 ára reynslu af rekstri og orkubúskap skipa sem hafði skýra sýn á stafræna upplýsingaöflun og greiningu á umhverfisgögnum til að bæta vistspor fyrirtækja. Mér þótti þetta afskaplega heillandi og því bundumst við böndum við Klappir um að þróa aðferðir og tækni sem nýtist fyrirtækjum í sjávarútvegi. Þá erum við komin í gott samstarf við Umhverfisstofnun og innan dyra höfum við sett upp vinnuhóp umhverfismála þar sem saman koma aðilar frá öllum vinnustöðvum og deildum og þá starfrækjum við vinnuhóp á aðalskrifstofu um samfélaglega ábyrð. Ég er ekki frá því að okkur hafi tekist að ná talsverðri forystu á þessu sviði því bæði höfum við hlotið viðurkenningar auk þess er sífellt verið að leita til okkar með að greina frá þessum hluta af starfsemi okkar. Þá eru ótalin námskeið og sá fjöldi háskólanema úr allskonar greinum sem hafa til okkar leitað til að kynnast samfélagslegri ábyrgð í sjávarúvegi, umhverfismálum, jafnréttismálum og hvaðeina,“ segir Svavar.

___________

„Þá eru orkuskiptin veigamikil en hafa ber í huga að 95% af allri losun HB Granda er frá skipum. Eitt er þó alveg víst en það er að þeir orkugjafar sem leysa munu jarðefnaeldsneyti af hólmi verða dýrari,“

___________

„Mestu skiptir þó að við höfum náð árangri og við getum gert betur. Við getum hagrætt flota og skipulagt veiðar betur en þegar hefur íslenskur sjávarútvegur komið eldneyti niður um helming frá því sem mest var eða niðrí 140 þúsund tonn úr 250 þúsund tonnum frá viðmiðunarárinu 1990. Kvótinn er föst stærð og því verðum við að hafa sífellt minna fyrir því að ná að auka verðmætið. Þá eru orkuskiptin veigamikil en hafa ber í huga að 95% af allri losun HB Granda er frá skipum. Eitt er þó alveg víst en það er að þeir orkugjafar sem leysa munu jarðefnaeldsneyti af hólmi verða dýrari,“ segir Svavar. Þess vegna er svo mikilvægt að minnka notkunina með nýrri tækni og hagræðingu. Hann telur fjölmörg tækifæri framundan en mikilvægt sé að gera þetta af skynsemi eins og t.d. með rafvæðingu hafna og fiskimjölverksmiðja. „Við þurfum ekki að fara í einhverjar áhættusamar aðgerði – engar kúvendingar. Við náum alveg árangri án þess.“

Breytingar á breytingar ofan

Það eru ekki bara breytingar á tækni og skipulagi veiða og vinnslu sem Svavar hefur farið í gegnum heldur hefur hann staðið ölduna í umróti breytinga á eignarhaldi á félaginu og stjórnendum. Frá því hann hóf störf hjá BÚR og til dagsins í dag hafa forstjórarnir verið 14 og eignarhaldið hefur breyst frá því að vera bæjarútgerð yfir í hlutafélag á markaði þar sem eigendur geta komið og farið. Svavar hefur því marga fjöruna sopið og er væntanlega betur að sér en flestir í því sem upp á síðkastið hefur verið kallað breytingastjórnun. Og nú er HB Grandi að fara í gegnum enn eitt breytingaskeiðið þar sem Guðmundur Kristjánsson, útgerðarmaður frá Rifi, keypti kjölfestuhlut í félaginu af Kristjáni Loftssyni í Hval hf. sem hafði farið með hlutinn ásamt Árna Vilhjálmssyni í nærri þrjá áratugi.

__________

„Sjávarútvegurinn væri ekki það sem hann er í dag ef hann hefði ekki gengið í gegnum umbrot og breytingar“

__________

„Sjávarútvegurinn væri ekki það sem hann er í dag ef hann hefði ekki gengið í gegnum umbrot og breytingar“ segir Svavar þegar talið berst að yfirstandandi breytingum. „Það er gríðarlega mikilvægt að vera á tánum, leita nýrra leið við að auka framleiðni og auka verðmætin.. Fyrirtæki verða að taka breytingum.“ Svavar segir jafnframt að svona breytingaskeið geti tekið á einstaklinga og það er oft erfitt bæði fyrir þá sem þurfa að taka pokann og eins fyrir þá sem áfram sitja. En breytingar eru nauðsynlegar ekkert síður þegar vel gengur.

„Innkoma Guðmundar Kristjánssonar í félagið er vissulega vísbending um frekari breytingar. Ég þekki hann bara af góðu og líst vel á áherslurnar hans. Guðmundur er einn af þessum mönnum sem þekkir greinina inn og út, með mikla reynslu og hann leggur allt sitt undir í sjávarútvegi. Hann er tvímælalaust einn helsti forystumaður greinarinnar á Íslandi og því gott að fá hann um borð,“ segir Svavar og bætir við að sagan sýni að Guðmundir hafi oft haft rétt fyrir sér þegar hann hefur látið í sér heyra um hluti sem ekki hafa endilega notið vinsælda. „Það er alveg rétt að fyrirtæki í sjávarútvegi þar sem aðstæður geta breyst hratt verða að hafa borð fyrir báru – verða að hafa viðspyrnu. Sérðu bara eins og með Rússland þar sem ákvarðanir íslenskra stjórnvalda leiddu til þess að Rússar lokuðu fyrir sjávarfang frá Íslandi og greinin tapaði þeim mikilvæga markaði. En hún stóð þetta af sér fyrir eigin rammleik án stuðnings ríkisvaldsins. Það eina sem ríkið gerði var að auka veiðigjöldin.“

__________

„Guðmundur er einn af þessum mönnum sem þekkir greinina inn og út, með mikla reynslu og hann leggur allt sitt undir í sjávarútvegi. Hann er tvímælalaust einn helsti forystumaður greinarinnar á Íslandi og því gott að fá hann um borð,“

__________

Svavar er þeirrar skoðunar að mikið muni mæða á forystumönnum í greininni á næstunni því hann telur að sannfæra verði stjórnmálamenn um nauðsyn breytinga. „Núna er hættan sú að stjórnvöld sýni andvaraleysi af því að vel hefur gengið á síðasta áratug og þau halda að allt sé í lagi og engu þurfi að breyta en það er mikill misskilningur og stóra hættan,“ segir Svavar og talið berst að þakinu á kvótaeign fyrirtækja.“Ef ekki verður farið í að gera eitthvað til að lyfta þakinu í áföngum er hætta á að atburðarás framfara verði stöðvuð. Leiðandi fyrirtæki eru komin upp í þak og eiga ekki auðvelt um vik að þróast og mæta kröfum tímans.“ Hann segir að stjórnmálamenn verði að taka af skarið og skapa stærri fyrirtækjum svigrúm til að þróast og að það sé ekkert sniðugt fyrir fyrirtæki að þurfa að fara í kringum einhverjar reglur heimafyrir til að geta staðist samkeppni á alþjóðamörkuðum. „Íslenskur sjávarútvegur hefur fengið tækifæri til að þróast og breytast á síðustu fjörtíu árum og hann verður að hafa það til frambúðar. Fyrirtæki mega ekki staðna“ – segir Svavar Svavarsson sem staðið hefur í stafni breytinga í greininni í fjóra áratugi og skilur við greinina þar sem hún er í fararbroddi í heiminum á fjölmörgum sviðum. Svavar vill samt halda því til haga að sjávarútvegur í Íslandi sé til sóma og til fyrirmyndir og hann minnir á hversu vandinn í greinninni var gríðarlegur fyrir um þrjátíu árum. „Í mínum huga eru vandamálin í dag lúxusvandamál í samanburði við þau sem við þurftum að ganga í gegnum þá.“

Spilar nú á aðra strengi

Svavar Svavarsson virðist afar sáttur við sitt ævistarf og ekki er annað að sjá en hann stökkvi glaður frá borði í HB Granda. Hann er í fullu fjöri og þeir sem til hans þekkja vita að ekki mun langt um líða þar til hann verður komin með fangið fullt af viðfangsefnum. En það verður ekki á vettvangi sjávarútvegsins. „Mér finnst afskaplega notaleg sú tilhugsun að komast í pásu. Þetta er búið að vera ansi mikið at. Ég hef mikinn áhuga á sjávarútvegi og ætla að fylgjast með hvernig mál þróast en ég ætla ekki að stíga þar inn. Ég ætla bara að vera áhorfandi og njóta þess að fylgjast með úr fjarlægð.“

Hann ætlar að toga í nýja spotta og spila á aðra strengi. Ljóst að hann vill gefa fjölskyldunni góðan tíma en barnabörnin eru orðin samtals tíu að tölu. Í samtalinu hefur komið fram að þegar menn helga líf sitt starfinu af þeim krafti sem Svavar gerði þá verður oft lítill tími eftir fyrir fjölskylduna. „Þá hefur eiginkonan tekið ágætlega í að fá píanó á heimilið og ég gæti hugsað mér að læra á það,“ segir Svavar sem hefur allt frá unglingsárum verið liðtækur gítarleikari. „Þá langar mig að endurnýja kynni mín af spænsku en hana lærði ég svolítið um aldamótin og þá kæmi til greina að dvelja einhversstaðar í spænskumælandi landi og sækja tíma“ en Svavar dvaldi á sínum tíma í hinni fornfrægu borg Salamanca í Kastalíu á Spáni þegar hann gerði fyrstu atlöguna að spænskunni og er ljóst að hann á ljúfar minningar þaðan.

Það er bjart yfir Svavari Svavarssyni þegar hann kveður HB Granda. Eftir fjörutíu ár sem stjórnandi í fyrirtæki sem hefur tekið stöðugum og farsælum breytingum hlakkar hann til að takast á við breytingarnar sem framundan eru í eigin lífi. „Þetta verður bara gaman,“ segir hann.


Fleiri myndir með frétt

Nýjustu fréttir

Allar fréttir