FréttirSkrá á póstlista

24.12.2018

Á sjötta hundrað manns í jólaveislum HB Granda

Það er fastur liður á aðventunni að efnt er til jólaveisla fyrir starfsmenn og gesti HB Granda á einstökum starfsstöðvum. Að þessu sinni sóttu vel á sjötta hundrað manns veislurnar og tókst framkvæmd hið besta. Allar voru haldnar dagana 12. til 14. desember sl.

Mest var um að vera á stærstu starfsstöðinni í Reykjavík en þar mættu rúmlega 270 manns í mötuneytið.
,,Við brugðum á það ráð að skipta hópnum upp í þrennt. Þeir fyrstu settust til borðs kl. 12. Næsti hópur kom svo hálftíma seinna og þeir síðustu settust til borðs kl. 13. Með þessu tókst okkur að draga úr álaginu á eldhúsið,” segir Kristjana Björk Magnúsdóttir.

Maturinn var hefðbundinn jólamatur. Í forrétt voru ýmiss konar síldaréttir og andapaté. Í aðalrétt voru hangilæri með uppstúf og hamborgarhryggur með brúnuðum kartöflum og öðru meðlæti. Laufabrauð var einnig á borðum. Í eftirrétt voru ris a la mande, kaffi og konfekt.

,,Við fengum Guðmund Reyni Gunnarsson til að leika jólalög á píanó á meðan setið var til borðs. Framkvæmd veislunnar tókst vel til og þetta var hátíðleg stund,” segir Kristjana Björk Magnúsdóttir.

HB Grandi er með þrjár fastar starfsstöðvar á Akranesi, fiskmjölsverksmiðju, niðurlagningarverksmiðju Vignis G. Jónssonar og fiskréttaframleiðandan Norðanfisk.

Ólöf Linda Ólafsdóttir segir að 63 manns hafi sótt veisluna hjá Vigni G. Jónssyni.

,,Auk okkar eigin starfsmanna var verkstæðismönnum HB Granda og starfsmönnum fiskmjölsverksmiðju félagsins boðið að vera með okkur. Í matinn var hangilæri og meðlæti og svo hátíðarís í eftirrétt,” segir Ólöf Linda Ólafsdóttir.
Starfsmenn Norðanfisks eru 40 talsins og mættu þeir allir í jólaveisluna.

,,Veislan tókst að vanda mjög vel. Í matinn voru síld og hangilæri með tilheyrandi meðlæti. Við höfum haft þann háttinn á hér að hver starfsmaður kemur með einn jólapakka og tillviljun ein ræður því hver fær pakkann. Tveir starfsmenn, þeir Axel og Jón, léku jólalög á gítara og sungu á milli þess sem þeir deildu út jólapökkunum, bæði frá félaginu og samstarfsmönnunum. Þetta tókst mjög vel og við áttum góða og hátíðlega stund saman,” segir Elva Jóna Gylfadóttir hjá Norðanfiski.

Á Vopnafirði er HB Grandi með fjölmenna vinnustaði. Jólaveislan var að vanda haldin í félagsheimilinu Miklagarði á Vopnafirði.

,,Mér telst til að rúmlega 140 manns hafi mætt í jólaveisluna. Það var hangilæri í matinn með alls konar meðlæti og að sjálfsögðu laufabrauði. Að vanda fengum við tónlistarkennara frá tónllistarskólanum á Vopnafirði til að leika jólalög á píanó undir borðum og það var enginn svikinn af þeim tónlistarflutningi. Heilt yfir var þetta skemmtileg og hátíðleg stund,” segir Magnús Þór Róbertsson hjá HB Granda á Vopnafirði.

 

 

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir