FréttirSkrá á póstlista

18.10.2018

Síldveiðar á síðustu metrunum

Lítið er eftir af kvóta íslenskra skipa í norsk-íslensku síldinni og hafa útgerðir margra skipa nú snúið sér að kolmunnaleit fyrir austan land. Víkingur AK er nú í sínum síðasta síldveiðitúr og segir skipstjórinn, Hjalti Einarsson, að aflinn í fyrradag hafi verið þokkalegur.

,,Við höfum þurft að elta síldina austur eftir og vorum komnir á veiðisvæðið snemma í gærmorgun. Við tókum tvö hol í gær, um 200 til 220 tonn í hvoru en í dag höfum við ekkert getað verið að veiðum vegna skítabrælu,“ sagði Hjalti er rætt var við hann í gær en hann er nokkuð ánægður með síldarvertíðina.

,,Það hefur verið ágætur afli og stór og fín síld en tíðarfarið inn á milli hefur verið afskaplega erfitt.“

Auk Víkings er Álsey VE á miðuum. Venus NS er í höfn á Vopnafirði en Hjalti telur að Venus eigi einn síldveiðitúr eftir. Framhaldið er hins vegar óráðið.

,,Vonandi finnst kolmunni í veiðanlegu magni og svo er það auðvitað loðnuvertíðin sem allir horfa til. Það ríkir algjör óvissa um loðnuna. Það á frekari leit eftir að fara fram og vonandi skilar hún árangri,“ segir Hjalti Einarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir