FréttirSkrá á póstlista

29.08.2018

Uppgjör HB Granda hf. á öðrum ársfjórðungi 2018

  • Rekstrartekjur samstæðunnar á öðrum árfjórðungi voru 49,8 m€ og 100,0 m€ á fyrri árshelmingi (2F 2017: 54,8 m€, 1H 2017: 96,8 m€)

  • EBITDA nam 2,8 m€ á öðrum ársfjórðungi og 10,6 m€ á fyrri árshelmingi (2F 2017: 6,5 m€, 1H 2017: 13,9 m€)

  • Tap á öðrum ársfjórðungi var 0,2 m€ og hagnaður á fyrri árshelmingi 3,1 m€ (2F 2017 hagnaður: 1,9 m€, 1H 2017: 5,7 m€ hagnaður)

  • Handbært fé frá rekstri nam 6,0 m€ á fyrri árshelmingi (1H 2017: 6,7 m€)

Rekstur fyrstu sex mánaða ársins 2018

Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrri helmingi ársins 2018 námu 100,0 m€, samanborið við 96,8 m€ árið áður.  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 10,6 m€ eða 10,6% af rekstrartekjum, en var 13,9 m€ eða 14,4% árið áður.  Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 1,5 m€, en voru neikvæð um 1,5 m€ á sama tíma árið áður.  Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 1,5 m€, en voru jákvæð um 1,0 m€ árið áður.  Hagnaður fyrir tekjuskatt var 3,7 m€ og hagnaður tímabilsins var 3,1 m€. 

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 514,5 m€ í lok júní 2018. Þar af voru fastafjármunir 430,0 m€ og veltufjármunir 84,5 m€.  Eigið fé nam 250,5 m€, eiginfjárhlutfall í lok júní var 48,7%, en var 51,6% í lok árs 2017. Heildarskuldir félagsins voru í júnílok 264,0 m€.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 3,3 m€ á tímabilinu, en nam 6,7 m€ á sama tíma fyrra árs.  Nettó fjárfesting í rekstrarfjármunum nam 16,6 m€.  Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 8,6 m€.  Handbært fé lækkaði um 4,6 m€ á tímabilinu og var í lok júní 13,0 m€.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrri árshelming 2018 (1 evra = 123,5 kr) verða tekjur 12,3 milljarðar króna, EBITDA 1,3 milljarður og hagnaður 0,4 milljarðar.  Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 30. júní 2018 (1 evra = 123,45 kr) verða eignir samtals 63,5 milljarðar króna, skuldir 32,6 milljarðar og eigið fé 30,9 milljarðar.

Skipastóll og afli

Í lok júní gerði félagið út 8 fiskiskip, en síðasti ísfisktogarinn af þremur Viðey RE-50 fór í fyrstu veiðiferð sína í júní.Á fyrri árshelmingi ársins 2018 var afli skipa félagsins 23,8 þúsund tonn af botnfiski og 73,2 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Önnur mál

Í byrjun júní seldi eignarhaldsfélagið Deris S.A., sem HB Grandi á 20% hlut í, allar eignir fiskeldisfyrirtækisins Salmones Friosur S.A. til Exportadoa Los Fiordos Limitada (dótturfélags Agrosuper S.A).  Lok viðskipta eru áætluð á þriðja ársfjórðungi 2018 en viðskiptin eru háð samþykki stjórnvalda í Síle. Söluverðið var 229 milljónir usd eða um 195 milljónir evra á söludegi.    Áhrif sölunnar á rekstarafkomu Deris S.A. að teknu tilliti til skatta eru áætluð 103 milljónir usd (um 88 milljónir evra) og 20% hlutur HB Granda í þeim 21 milljón usd (18 milljónir evra).

Kynningarfundur þann 30. ágúst 2018

Opinn kynningarfundur um afkomu félagsins á öðrum ársfjórðungi verður haldinn fimmtudaginn 30. ágúst klukkan 8:30 í höfuðstöðvum félagsins að Norðurgarði 1.  Guðmundur Kristjánsson forstjóri mun kynna uppgjörið og svara spurningum.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda hf.:

„Taprekstur á HB Granda á öðrum ársfjórðungi er óviðunandi.  Skýringar eru m.a. hátt gengi íslensku krónunnar sem dró úr arðsemi fiskvinnslunnar.  Þá taka veiðigjöld  ekki tillit til arðsemi af veiðum einstakra fisktegunda, því grunnur veiðigjaldsins er afkoma greinarinnar árið 2015.

Ég sé góð færi til að bæta rekstur HB Granda. Veiðar má auka með auknum veiðiheimildum og arðsemina má bæta með breytingum á skipum og flota. Verið er að skoða fjárfestingar í vinnslu og tæknibúnaði sem ættu að hafa jákvæð áhrif á reksturinn þegar fram í sækir. Einnig er í athugun að auka samstarf á sviði markaðs- og sölumála og jafnvel fjárfesta í erlendum sölufélögum.”

Viðhengi

Nýjustu fréttir

Allar fréttir