FréttirSkrá á póstlista

29.08.2018

Síld setur strik í reikninginn á makrílveiðum á heimamiðum

Víkingur AK er nú á leið til Vopnafjarðar með um 900 tonna makrílfarm og Venus NS lét úr höfn um hádegisbilið eftir að hafa komið með um 880 tonna farm til vinnslu hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda á staðnum. Makrílveiðarnar eru nú að mestu stundaðar í Síldarsmugunni rétt fyrir utan lögsögumörkin en mikil síldargengd á Hvalbakssvæðinu hefur sett strik í makrílveiðarnar á heimamiðum.

Að sögn Hjalta Einarssonar, skipstjóra á Víkingi, var áhöfnin búin að taka tvö hol á Hvalbakssvæðinu og fá um 200 tonn af makríl áður en ákveðið var að halda út undir lögsögumörkin.

,,Við fengum makríl að deginum en um leið og það dimmdi þá kom síldin upp. Það var ómögulegt að átta sig á því hvort verið væri að veiða síld eða makríl og við brugðum því á það ráð að færa okkur. Það hafði verið góð veiði rétt við línuna norðarlega í Síldarsmugunni en þegar við komum út var sú veiði dottin niður. Það fékkst hins vegar ágætur afli sunnar og austar og þar lukum við veiðum í nótt sem leið,“ segir Hjalti en að hans sögn er nú mikill fiskiskipafloti á veiðisvæðinu. Ótal rússnesk skip auk Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga.

,,Við fengum þennan afla í fimm holum á um tveimur sólarhringum,“ sagði Kristján Þorvarðarson, skipstjóri á Venusi, er rætt var við hann. Kristján segir að aflinn hafi fengist rétt austan við línuna sem afmarkar íslensku lögsöguna og alþjóðlega hafsvæðið.

,,Þetta var allt mjög vænn og góður makríll. Það var hins vegar mikil ferð á fiskinum og mjög erfitt að fylgja honum eftir. Veiðin var sömuleiðis vandasöm enda er makríllinn brellinn,“ segir Kristján en hann býst við því að vera um sólarhring á leiðinni á miðin.

Tvö skip eru nú að veiðum grunnt úti af Austfjörðum en þar er aflinn, sem áður segir, makríll á daginn en síld á nóttinni.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir