FréttirSkrá á póstlista

24.07.2018

Fínasta veiði en leita þarf að þorski

,,Það er búin að vera fín veiði en ég neita því ekki að það er erfitt að finna þorsk einan og sér. Karfinn er alls staðar og ufsaveiðin gekk vel en við þurftum að hafa fyrir því að veiða þann þorskskammt sem okkur var ætlaður í veiðiferðinni.“

Þetta sagði Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á Helgu Maríu AK, er rætt var við hann en skipið var þá á leið frá Reykjavík áleiðis í Víkurálinn. Helga María kom til Reykjavíkur í gærmorgun eftir veiðiferð á Vestfjarðamið og Heimir segist vera ánægður með aflabrögðin.

,,Við byrjuðum þann túr á Halamiðum og þar var töluvert af stórum og góðum gullkarfa. Við fórum norður á Barðið, sem er nyrsti hluti Halans, og þar fengum við ufsa. Þaðan var svo haldið djúpt norður í kantinn og þar fengum við grálúðu. Lengst vorum við þó á sjálfum Halanum og fengum þar karfa og ufsa en það var helst að þorskurinn kæmi með sem aukaafli,“ segir Heimir en hann segir að þegar hér var komið sögu hafi vantað þó nokkuð upp á að æskilegum þorskafla fyrir vinnsluna hafi verið náð.

,,Ég ákvað því að halda í Nesdýpið á leiðinni heim og þar voru um 60% aflans þorskur. Hitt var ýsa, karfi og skarkoli. Úr Nesdýpinu var stefnan svo sett á Reykjavík þangað sem við komum snemma í gærmorgun.“

Að sögn Heimis hefur verið mjög góð karfaveiði í Víkurálnum upp á síðkastið en nú og fram eftir ágústmánuði er besti karfaveiðitíminn á Vestfjarðamiðum. Þorskurinn er hins vegar vandveiddari en þó sagðist Heimir hafa fengið fregnir af góðri þorskveiði á Strandagrunni. Lítil þorskveiði hefur hins vegar verið á Þverálshorni.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir