FréttirSkrá á póstlista

25.06.2018

Góð byrjun á veiðum hjá Viðey RE

,,Það er óhætt að segja að allt hefur gengið eins og í sögu eftir að við tókum við skipinu. Tilraunatúrarnir gengu vel og það tók skamman tíma til að fá allt til að virka eins og að var stefnt. Við erum búnir að fara í tvær veiðiferðir á Vestfjarðamið og vorum með nánast fullfermi í báðum túrum,“ segir Jóhannes Ellert Eiríksson, skipstjóri á Viðey RE, hinum nýja ísfisktogara HB Granda.

Viðey kom til landsins í desember sl. en eftir komuna var skipinu siglt til Akraness þar sem millidekk skipsins var innréttað og sjálfvirku lestarkerfi komið fyrir. Því verki lauk fyrir sjómannadag.

,,Við erum reyndar enn að læra á tækni- og tölvubúnaðinn en heilt yfir hefur allt farið fram úr okkar björtustu vonum,“ segir skipstjórinn sem er hæst ánægður með nýja skipið.

,,Það er í raun ekki hægt að lýsa viðbrigðunum að fara af Ottó N. Þorlákssyni RE yfir á nýja skipið. Ottó er reyndar gott skip en með sínar takmarkanir. Á Viðey finnur maður varla fyrir veltingi. Hljóðvistin er sú besta sem hægt er að hugsa sér. Maður í koju heyrir ekki þegar verið er að hífa og skrölt í keðjum heyrist ekki í íbúðum. Stundum var ekki hægt að tala saman um borð í Ottó vegna hávaða en það vandamál heyrir sögunni til. Um annan aðbúnað fyrir mannskapinn þarf ekki að fjölyrða. Allt er fyrsta flokks,“ segir Jóhnnes Ellert eða Elli eins og hann er jafnan nefndur.

Elli hefur góða reynslu af notkun svokallaðra Bacalao trolla á veiðum og um borð í Viðey eru tvö ný slík troll. Toghlerar eru af gerðinni Thyborön og vegur hvor um sig fjögur tonn.

,,Við erum reyndar nú með mun stærri troll en við vorum með á Ottó. Hlerarnir voru þriggja tonna en þrátt fyrir það er troll og hlerar nú mun léttari í drætti en áður,“ segir Jóhannes Ellert Eiríksson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir