FréttirSkrá á póstlista

03.05.2018

Smíði á nýjum frystitogara HB Granda gengur vel

Smíði á nýjum flakafrystitogara HB Granda er fyrir nokkru hafin hjá spænsku skipasmíðastöðinni Astilleros Armon Gijon á Norður-Spáni. Búið er að setja upp 16 blokkir eða einingar og fimm aðrar eru nú í smíðum. Skipið er samsett úr 51 einingu þannig að búið er að smíða og sníða um þriðjung skipsskrokksins.

Nýi frystitogarinn verður 81,30 metra langur og 17,00 metra breiður eða um 5.000 brúttótonn að stærð. Skipið er hannað af Rolls-Royce í Noregi. Hönnun þess tekur mið af orkusparnaði bæði á veiðum og á siglingu og verður skrúfan 4,00 metrar í þvermál. Aðalvélin verður af gerðinni Bergen-Diesel og verður afl hennar 5400 kW. Skipið verður búið öflugu rafvindukerfi frá Rolls-Royce og verður rafmagn fyrir vindurnar og annan búnað framleitt með ásrafali. Fullkomnasti búnaður til flökunar og frystingar verður í skipinu og er framleiðslugetan áætluð rúm 100 tonn á sólarhring. Þá verður fiskmjölsverksmiðja um borð fyrir ýmislegt sem fellur til við flakavinnsluna og verður afkastageta hennar um 50 tonn á sólarhring. Í frystilestum verður rými fyrir allt að 1.000 tonn af afurðum, flokkuðum á brettum.

Stefnt er að afhendingu skipsins um mitt næsta ár.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir