FréttirSkrá á póstlista

28.02.2018

Allt klárt fyrir hrognaskurð á Skaganum

Uppsjávarveiðiskipin Venus NS og Víkingur AK eru nú suður af Reykjanesi í leit að loðnu sem hentað gæti til hrognatöku. Allt er klárt fyrir hrognaskurð og frystingu á loðnuhrognum á Akranesi en þar koma um 100 manns til með að starfa á vegum HB Granda í þá daga sem loðnuhrognafrystingin stendur yfir.

,,Við fórum út klukkan fimm í morgun og höfum leitað að loðnu vestur og suður af Reykjanesi. Við fengum sæmilegt kast á Hafnarleirnum í morgun en annars er búið að vera rólegt yfir þessu hjá okkur í dag,“ sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK, er rætt var við hann.

Að sögn Alberts er ómögulegt að segja til um þroska hrognanna í loðnunni og það skýrist ekki fyrr en eftirlitsmenn japanskra kaupenda skoði hrognin í landi. Albert reiknar með að annað hvort skipið verði kallað inn fljótlega til að hægt verði af skoða hrognin en vegna smæðar kvótans gefst ekkert svigrúm til tilraunastarfsemi úti á sjó.

,,Það er klárt að eitthvað af loðnu er búið að ganga fyrir Reykjanes og inn í Faxaflóa en vandinn er að finna hana. Það er ekki auðvelt þegar skipin eru fá og dreifð,“ segir Albert Sveinsson.

Gunnar Hermannsson, verkstjóri á Akranesi, sem stýrt hefur hrognaskurði og -frystingu fyrir HB Granda mörg undanfarin ár, segir að vegna smæðar kvótans sé stefnan sú að öll loðnuhrogn verði fryst á Akranesi að þessu sinni. Akranes liggi vel við miðunum og þangað sé aðeins nokkurra klukkutíma sigling frá þeim stað sem skipin eru nú á.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir