FréttirSkrá á póstlista

19.02.2018

Aftur bilun í Örfirisey RE

Frystitogarinn Örfirisey RE er nú í höfn í Hammerfest í Norður-Noregi en þamgað kom togarinn um helgina eftir að vart varð við enn eina bilunina í vélbúnaði skipsins. Sá frystitogarinn Kleifaberg ÓF um að draga Örfirisey til hafnar.

Herbert Bjarnason, tæknistjóri skipa HB Granda, segir nú ljóst að eitthvað hafi misfarist þegar aðalvél Örfiriseyjar var tekin upp á vegum framleiðenda vélbúnaðarins fyrir áramótin. Það skýri einnig bilunina sem varð fyrir rúmri viku síðan.

,,Eftir að Örfirisey lét úr höfn síðasta föstudag var, eins og í sambærilegum tilfellum, fylgst vel með þeim búnaði sem gert hafði verið við og var ekki neitt athugavert að sjá. Á laugardagsmorgun varð síðan vart við mikinn hita í tímagírnum og var um leið drepið á aðalvél. Við skoðun kom í ljós að bilunin var sú sama og hafði valdið síðasta tjóni, þ.e.a.s. að lega á millitannhjóli var úrbrædd.” 

Herbert segir að skipið hafi þá verið statt um 30 sjómílur norður af Hammerfest í Noregi og hafi Kleifabergið verið fengið til að draga skipð upp að landi þar sem dráttabátur tók við því og fór með það til hafnar í Hammerfest. 

,,Þegar farið var að taka búnaðinn í sundur kom í ljós að orsakavaldurinn núna er bilun í þrýstilegu á kambásnum. Bilunin veldur því að ásinn getur færst langsum í vélinni og valdið óeðlilegri þvingun á tannhjólin í tímagírnum. Verið er að vinna í að meta tjónið en talið er að skipta þurfi um kambás ásamt öllum tannhjólum, legum og öxlum í tímagír,” segir Herbert Bjarnason.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir