FréttirSkrá á póstlista

10.11.2017

Marshallhúsið hlaut Hönnunarverðlaun Íslands 2017

Hönnunarverðlaun Íslands voru afhent í fjórða sinn við hátíðlega athöfn í gærkvöldi. Veitt voru verðlaun í tveimur flokkum, Hönnunarverðlaun Íslands og Besta fjárfesting í hönnun 2017.

Handhafar Hönnunarverðlauna Íslands 2017 eru Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason arkitektar Kurt og Pí, fyrir Marshallhúsið. Þeir leiddu hönnun verksins í samstarfi við ASK arkitekta.

Marshallhúsið, sem er í eigu HB Granda og á athafnasvæði félagsins í Reykjavík, er nýr vettvangur lista við gömlu höfnina í Reykjavík. Húsið var byggt árið 1948 sem síldarbræðsla en hýsir nú Nýlistasafnið, Kling og Bang, Stúdíó Ólafs Elíassonar ásamt vinnustofu og Marshall Restaurant + Bar. 

Í umsögn dómnefndar kom meðal annars fram að verkið kristalli vel heppnaða umbreytingu eldra iðnaðarhúsnæðis fyrir nýtt hlutverk í samtímanum. Í verkinu sé unnið vel með sögu byggingarinnar og samhengi staðar og til verði nýr áfangastaður fyrir samtímalist í Reykjavík á áhugaverðu þróunarsvæði í borginni.  Marshallhúsið sé gott dæmi um hvernig með aðferðum hönnunar verði til nýsköpun í borgarumhverfinu.

Viðurkenningu fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun 2017 hlaut Bláa Lónið þar sem hönnun eða arkitektúr er hafður að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfni fyrirtækisins.


Fleiri myndir með frétt

Nýjustu fréttir

Allar fréttir