FréttirSkrá á póstlista

14.10.2017

Þokklegt ufsakropp fyrir bræluna

Ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson AK var á veiðum á Fjöllunum suðvestur af Reykjanesi fram á fimmtudagskvöld og að sögn Eiríks Jónssonar skipstjóra voru aflabrögðin þokkaleg. Togarinn  kom á miðin um miðja vikuna og segir skipstjórinn að aðfararnótt fimmtudags hafi verið varið í ufsaveiði með þokkalegum árangri.

,,Það er ekki beint hægt að segja að það sé kraftur í veiðunum en þokkalegur gangur lýsir ástandinu betur. Við fengum þokkalegan ufsaafla þar sem við vorum í nótt og hið sama á við um gullkarfaveiðina hér á Fjöllunum,“ segir Eiríkur en hann reiknar með að verja föstudeginum í að sigla á Vestfjarðamið þar sem þorskur og fleiri tegundir bíða togarans.

,,Það er spáð skítabrælu og veðrið á ekki að ganga niður fyrr en seint á föstudagskvöld. Þá verðum við klárir í slaginn,“ segir Eiríkur en skipið er væntanlegt til hafnar í Reykjavík nk. þriðjudag.

Áhöfnin á Sturlaugi H. Böðvarssyni flyst á næstunni yfir á hinn nýja togara Akurey AK en verið er að innrétta millidekk og setja upp sjálfvirkt lestarkerfi í skipinu hjá Skaganum 3X á Akranesi. Eiríkur er búsettur á Akranesi og hann segist vera með annan fótinn um borð í Akurey þegar hann er í landi.

,,Auðvitað fylgist maður spenntur með framkvæmdunum og það hefur gengið vel að koma búnaði fyrir. Svo á eftir að láta tölvukerfin virka rétt en reynslan af systurskipinu Engey RE mun hjálpa þar til. Ef allt gengur að óskum ættum við að geta flutt okkur yfir á Akurey upp úr miðjum næsta mánuði,“ segir Eiríkur Jónsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir