FréttirSkrá á póstlista

22.09.2017

Góður síldarafli út af Norðfjarðardjúpi

,,Við eigum eftir að fara einn makríltúr í Síldarsmuguna en vegna veðurútlits var ákveðið að fara til síldveiða í staðinn. Horfur varðandi veður eru ekki beint góðar fyrir næstu daga en við verðum að sjá hvað setur og hvernig staðan verður að aflokinni löndun.“

Þetta segir Hjalti Einarsson, skipstjóri á Víkingi AK, en skipið er væntanlegt til Vopnafjarðar með um 800 tonn af síld nú fyrir kvöldmatarleytið. Aflinn fékkst í fjórum holum út af Norðfjarðardjúpi en þaðan eru 110 sjómílur til Vopnafjarðar.

Að sögn Hjalta voru fjögur skip að veiðum á svipuðum slóðum er Víkingur hóf veiðar en fyrr í dag var aðeins eitt skip eftir á miðunuum.

,,Síldveiðar eru nýhafnar og þótt það hafi orðið vart við síld á mjög mörgum stöðum nú í haust þá er ekki hægt að segja það með nokkurri vissu hvar síldin heldur sig aðallega. Það lóðaði mjög víða á síld út af Norðfjarðardjúpinu í gær og sú síld sem við fengum er af góðri millistærð og mjög vel haldin,“ sagði Hjalti en að hans sögn er nú verið að landa makríl úr Venusi NS á Vopnafirði og á löndun ekki að ljúka fyrr enn um miðnætti.  Í framhaldi af því verður byrjað að landa afla Víkings.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir