FréttirSkrá á póstlista

11.05.2017

HB Grandi mun sameina botnfiskvinnslu

Á fundi trúnaðarmanna HB Granda og forsvarsmanna HB Granda á Akranesi 11. maí 2017, var farið yfir áform um að leggja af fiskvinnslu í botnfiskvinnslu sinni á Akranesi. Að höfðu samráði við fulltrúa starfsmanna og stéttarfélaga hafa staðið yfir viðræður við Akraneskaupstað og einnig hafa fengist upplýsingar frá Faxaflóahöfnum og Reykjavíkurborg. Viðræðurnar hafa nýst vel til gagnkvæmra upplýsinga og munu gagnast aðilum til framtíðar.

Niðurstaða viðræðna hefur þó ekki breytt þeim áformum HB Granda að sameina botnfiskvinnslu félagsins á Akranesi við botnfiskvinnslu félagsins í Reykjavík þann 1. september næstkomandi.

Hjá HB Granda og dótturfélögum á Akranesi starfa 270 manns, þar af vinna 86 við botnfiskvinnsluna sem fá uppsagnarbréf fyrir næstu mánaðamót. Samtímis og jafnframt verður starfsfólki boðið að sækja um önnur störf hjá HB Granda og dótturfélögum í Reykjavík og á Akranesi. Vonir standa til að hægt verði að bjóða öllu starfsfólki sem þess óskar starf við hæfi.

Starfsfólk sem ekki fær vinnu við hæfi býðst aðstoð við atvinnuleit á vegum HB Granda. HB Grandi mun hafa samráð við trúnaðarmenn og stéttarfélög þeirra.

HB Grandi rekur eftir sem áður uppsjávarvinnslu, fiskimjölsverksmiðju og dótturfélögin Norðanfisk og Vignir G. Jónsson á Akranesi. Félagið mun leggja kraft í að efla þessar rekstrareiningar og fullvinnslu sjávarafurða á Akranesi.

Forráðamenn Akraneskaupstaðar og HB Granda munu halda áfram viðræðum um að standa að frekari uppbyggingu atvinnulífs á Akranesi. Einn liður í því er að fulltrúar Akraneskaupstaðar í Faxaflóahöfnum beiti sér fyrir því að ráðist verði í nauðsynlegar viðhaldsaðgerðir á Akraneshöfn. 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir