FréttirSkrá á póstlista

06.05.2017

Venus NS á leið til Vopnafjarðar með 2.500 tonna afla

Frekar rólegt er yfir kolmunnaveiðum í færeysku landhelginni þessa dagana. Bæði uppsjávarveiðiskip HB Granda hafa verið þar að veiðum og er Venus NS nú á leið til heimahafnar á Vopnafirði með um 2.500 tonna afla.

Að sögn Hilmars Kárasonar, 2. stýrimanns á Venusi, er skipið nú statt vestan við Færeyjar en reiknað er með því að það komi til hafnar á Vopnafirði um miðjan dag á morgun.
 
Róbert Axelsson, skipstjóri á Venusi NS, sagði í samtali við heimasíðuna um miðja vikuna að togað væri lengi í hvert sinn og að 350 til 500 tonna afli fengist að jafnaði í hverju holi. Þá var aflinn kominn í 1.600 til 1.700 tonn og að sögn Hilmars hefur hann verið svipaður alla veiðiferðina. Kolmunninn er á norðurleið og munu skipin fylgja honum eftir.

Samkvæmt upplýsingum Sveinbjörns Sigmundssonar, verksmiðjustjóra HB Granda á Vopnafirði, voru bæði Venus og Víkingur AK í höfn um síðustu helgi með samtals rétt rúmlega 5.000 tonna afla. Rúma fimm sólarhringa tók að vinna aflann og gekk það vel að sögn Sveinbjörns Sigmundssonar.

 

Nýjustu fréttir

24.12.2020

Gleðileg jól

Allar fréttir