FréttirSkrá á póstlista

10.04.2017

Merk tímamót í útgerðarsögu landsmanna

Ísfisktogaranum Engey RE var vel fagnað við komuna til Reykjavíkur fyrir síðustu helgi en skipið, sem smíðað var í Tyrklandi, hefur undanfarnar vikur verið á Akranesi þar sem millidekk þess var innréttað og sjálfvirku lestarkerfi komið fyrir. Við móttöku sl. föstudag gaf Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skipinu nafn og Sr. Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprestur, blessaði skipið.

Vilhjálmur Vihjálmsson, forstjóri HB Granda, bauð gesti velkomna en meðal boðsgesta voru m.a. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, og S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs, en þeir héldu báðir stutt ávörp. Í máli Vilhjálms kom m.a. fram sú skoðun að með smíði Engeyjar væru mörkuð ákveðin tímamót í útgerðarsögu landsmanna. Fjöldi ísfisktogara af hefðbundinni stærð, 50 metra eða lengri, væri nú 16 skip. Öll væru þau smíðuð á síðustu öld og þar af helmingurinn á árunum 1972 til 1978. Endurnýjun á þessum undirstöðuatvinnutækjum Íslendinga hefði því verið óumflýjanleg.

,,Ásbjörn sem Engey leysir af hólmi var smíðaður árið 1978 og vantar því eitt ár í fertugt. Ásbjörn hefur reynst afburðar vel og þrátt fyrir að vera með þeim minnstu í þessum hópi togara hefur hann iðulega verið meðal þeirra aflahæstu og reyndar ósjaldan eða 13 sinnum aflahæsti ísfisktogari landsmanna, síðast árið 2014. Ásbjörn hefur landað um 227 þúsund tonnum í 1.542 löndunum, aflaverðmætið gæti verið um 40 milljarðar króna að núvirði. Já, geri aðrir betur!“

Vilhjálmur sagði ennfremur að forsenda hins góða árangurs væri góð áhöfn sem fiskaði vel og kynni til verka. 

,,Fyrstu tveir túrarnir í kjölfar nýafstaðins verkfalls tóku t.d. um 50 klst. hvor frá höfn í höfn og aflinn fullfermi eða 120 tonn af blönduðum afla í hvorri veiðiferð. Slíkur afli hefur reyndar ekki talist til sérstakra tíðinda þegar Ásbjörn hefur verið annars vegar. Það er í raun með ólíkindum hversu mikinn afla áhöfnin hefur ráðið við að koma um borð í Ásbjörn því vinnuaðstaða er vægast sagt bágborin miðað kröfur okkar í dag,“ sagði Vilhjálmur en hann greindi einnig frá því að til að standa vörð um minningu Ásbjarnar, og þar með sögu fyrri kynslóðar skuttogara, hafi HB Grandi látið gera heimildarmynd um Ásbjörn. 

,,Það var reyndar Björgvin Helgi Pálsson kvikmyndatökumaður sem sáði hugmyndinni hjá okkur og fengum við hann til verksins. Við stefnum að því að gefa almenningi kost á að sjá myndina um Sjómannadagshelgina.“

Í lok ræðu sinnar þakkaði Vilhjálmur hönnuði skipins, Alfreð Tulinius, Volkan Urun, framkvæmdastjóra skipasmíðastöðvarinnar Celiktrans í Tyrklandi, eftirlismönnunum með smíðinni, þeim Páli Kristinssyni og Þórarni Sigurbjörnssyni, Magnúsi Sigurðssyni, yfirvélstjóra á Engey, skipaeftirlitsmanninum Guðmundi Hafsteinssyni og Ingólfi Árnasyni, framkvæmdastjóra Skagans 3X, og starfsmönnum fyrirtækisins fyrir vel unnin störf.

Á einni af myndunum, sem fylgja fréttinni, sést stærðarmunurinn á hinu nýja skipi og Ásbirni RE sem það mun leysa af hólmi.

 


Fleiri myndir með frétt

Nýjustu fréttir

Allar fréttir