FréttirSkrá á póstlista

05.04.2017

Landvinnsla botnfisks

Í framhaldi af umræðu síðastliðna daga um breytingar á starfsemi HB Granda á Akranesi viljum við koma eftirfarandi á framfæri. Undanfarin ár hafa togarar félagsins landað afla sínum í Reykjavík. Drjúgur hluti aflans hefur verið fluttur þaðan landleiðina til Akraness til vinnslu og síðan til baka aftur eða framhjá Reykjavík til útflutnings. Þannig má áætla að í ár verði um 8.000 tonnum af þorski ekið í gegnum Reykjavík til Akraness til vinnslu og síðan um 4.000 tonnum aftur til Reykjavíkur til útflutnings, um 500 tonnum til Keflavíkurflugvallar til útflutnings og 3.500 tonnum til Reykjaness til þurrkunar.

Þessir flutningar hafa verið og eru óhagkvæmir. Afkoma af botnfiskvinnslu hefur þó getað borið þann kostnað á undanförnum árum,  þannig að ekki hefur þótt næg ástæða til að breyta þessu fyrirkomulagi. Nú blasir við að greiða þarf með þessari starfsemi haldi hún áfram óbreytt. HB Grandi hefur aðstöðu til að vinna allan aflann í Reykjavík og með því að færa vinnsluna þangað vonast félagið til að ná fram nægri hagræðingu til að réttlæta áframhaldandi bolfiskvinnslu samfara þeim áskorunum sem styrking krónunnar hefur haft á rekstur fyrirtækisins.

Í ljósi þeirrar umræðu sem á sér stað vill HB Grandi ítreka áform sín um að styrkja starfsemi sem er fyrir á Akranesi í dag, en félagið hefur í störfum sínum haft það að leiðarljósi að styðja við og efla þau samfélög sem það starfar í. HB Grandi hefur unnið að því að styrkja rekstur sinn á Akranesi en félagið keypti á árinu 2014 fyrirtækin Norðanfisk og Vigni G. Jónsson sem bæði starfa á Akranesi. Störfum hefur farið fjölgandi hjá báðum félögum og er enn stefnt að eflingu og frekari uppbyggingu félaganna til framtíðar.

Auk þess keypti HB Grandi fiskþurrkunina Laugafisk ehf. með það að markmiði að renna frekari stoðum undir vinnslu þorsks á Akranesi. Hefðu markmið um eflingu þurrkunarinnar gengið eftir hefðu um 3.500 tonn af hausum og hryggjum orðið eftir á Akranesi til frekari vinnslu. Þurrkun á Akranesi er aflögð og er efni til þurrkunar nú flutt til vinnslu til Haustaks á Reykjanesi.

Forsvarsmenn HB Granda og Akraneskaupstaðar eiga nú í viðræðum um framtíðarsýn að beiðni Akraneskaupstaðar og fulltrúa stéttarfélaga starfsmanna. Stefnt er að niðurstöðu þeirra viðræðna sem fyrst.

HB Grandi er ekki að hefja þær  viðræður til að knýja fram breytingar á áformum sínum með aðkomu Akranesbæjar eða annarra hagsmunaaðila. Áform félagsins um að hætta botnfiskvinnslu á Akranesi hafa ekkert með veiðigjöld, önnur gjöld félagsins eða kostnað við hafnargerð að gera. Áform um að standa að hópuppsögnum eru ekki gerð  af léttúð og eru ekki hluti af leikáætlun. Á Akranesi starfa nú 270 starfsmenn innan samstæðu HB Granda, þar af starfa 93 við botnfiskvinnsluna.

HB Grandi er stolt af sínu starfsfólki og tekur ábyrgð sína sem atvinnuveitandi alvarlega. Að loknu löngu verkfalli sjómanna sneri fiskverkafólk félagsins allt aftur til starfa. Sótt er í störf hjá félaginu og starfsmannavelta er lítil. HB Grandi sleit ekki ráðningarsambandi við starfsfólk sitt í fiskvinnslu  á meðan á verkfalli stóð. Starfsfólk við landvinnslu var því á launaskrá í verkfallinu í stað þess að þurfa að sækja atvinnuleysisbætur eins og dæmi voru um.  

Fyrirhugaðar aðgerðir á Akranesi eru ætlaðar til að styrkja fyrirtækið sem heild og tryggja áframhaldandi vegferð þess og allra sem þar starfa.

Að lokum er rétt að ítreka að verði af áformum félagsins um að hætta botnfiskvinnslu á Akranesi 1. september næstkomandi mun félagið leggja sitt af mörkum til að styðja og aðstoða starfsfólk vinnslunnar við að finna önnur störf innan félagsins sem utan.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir