FréttirSkrá á póstlista

24.02.2017

Mikið af stórri og góðri loðnu

Von var á Venusi NS til hafnar á Vopnafirði nú um hádegisbilið með um 1.800 tonn af loðnu. Aflinn fékkst í tveimur köstum út af Skaftárósvita í gær en alls voru tekin fjögur köst í túrnum. Í hinum tveimur rifnaði nótin.

,,Það er búin að vera bræla alla leiðina þótt við séum vel á undan versta veðrinu,“ segir Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Venusi, en er rætt var við hann átti Venus eftir um klukkutíma siglingu til Vopnafjarðar.

,,Ástandið á loðnunni er mjög gott. Það er mikið magn á ferðinni en loðnan gengur hratt vestur með ströndinni. Í morgun skilst mér að gangan hafi verið komin vel vestur fyrir Dyrhólaey. Þetta er stór og góð loðna og uppistaðan í okkar afla er loðna sem telur um 35 til 40 stykki í kílóinu. Það þykir mjög gott,“ segir Guðlaugur Jónsson.

Venus fór inn á Norðfjörð í morgun en þar verður gert við skemmdirnar á nótinni. Náð verður í nótina um leið og Venus kemst aftur á miðin. Hitt uppsjávarveiðiskip HB Granda, Víkingur AK, er nú á loðnumiðunum en þar fer veður nú versnandi og ekki er útlit fyrir veiðiveður eftir hádegi fyrr en lægðin, sem veðrinu veldur, er gengin hjá.

 

Nýjustu fréttir

24.12.2020

Gleðileg jól

Allar fréttir