FréttirSkrá á póstlista

24.01.2017

Engey kemur snemma í fyrramálið

Von er á ísfisktogaranum Engey RE í fyrsta skipti til heimahafnar í Reykjavík snemma í fyrramálið. Skipið var statt nú síðdegis um 130 sjómílur SSA af Reykjanesi og sagðist Friðlefur Einarsson skipstjóri vonast til að sigla inn í Reykjavíkurhöfn um kl. 5-6 árdegis.

,,Allt hefur gengið eins og í sögu hjá okkur. Við höfum fengið á okkur brælu en vindurinn stóð aftan á skipið þannig að þetta var bara lens,“ segir Friðleifur en í kvöld eru liðnir 15 sólarhringar frá því að Engey lagði úr höfn í Tyrklandi þar sem skipið var smíðað.

,,Mér reiknast til að heimsiglingin verði einhvers staðar á milli 3.800 og 3.900 sjómílur en ég hef reyndar heyrt að stysta mögulega siglingarleiðin á milli Istanbul og Reykjavíkur sé 3.724 mílur við bestu aðstæður,“ segir Friðleifur en hann og aðrir skipverjar munu ekki sitja aðgerðarlausir á morgun þrátt fyrir að vera tímanlega í höfn. 

,,Við förum beint í togprófanir í Hvalfirði og þaðan verður haldið á Akranes þar sem vinnslubúnaðurinn verður settur niður. Mér skilst að það standi til að sýna almenningi skipið eftir að því verki lýkur og það ætti að geta orðið öðru hvoru megin við mánaðamótin mars og apríl,“ segir Friðleifur Einarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir