FréttirSkrá á póstlista

21.12.2016

Velheppnaðar jólaveislur

Jólaveislur fyrir starfsmenn HB Granda, verktaka og fleiri gesti félagsins voru haldnar í síðustu viku og í byrjun þessarar. Veislurnar voru haldnar á fimm starfsstöðvum HB Granda í Reykjavík, á Akranesi og Vopnafirði og að vanda þótti vel til takast.

Að sögn Kristínar Helgu Waage Knútsdóttur, aðstoðarmanns forstjóra HB Granda, tóku um 560 manns þátt í veisluhöldunum að þessu sinni. 

Fjölmennasta veislan var líkt og áður haldin í Norðurgarði í Reykjavík en þar tóku 230 manns þátt. Í boði var humarsúpa með nýbökuðu brauði og reykt laxaterrine í forrétt. Aðalréttirnir voru hunangsskinka með rauðvínssósu og brúnuðum kartöflum og hangikjöt með jafningi og soðnum kartöflum. Í eftirrétt var Ris A´la Mande með heitri karamellusósu.

,,Matsalurinn var þétt setinn, maturinn var mjög góður og stundin virkilega hátíðleg. Hljómsveitin Friends 4 Ever söng og spilaði á meðan borðhaldi stóð,“ segir Kristín Helga. 

Þótt Norðurgarður sé fjölmennasta starfsstöðin þá mættu fleiri í jólaveislurnar á hinum þremur starfsstöðvum HB Granda á Akranesi. Flestir, eða alls um 195 manns, mættu í hangikjötsveisluna í fiskiðjuverinu og voru stjórnendur einkar ánægðir með góða mætingu af hálfu verktaka og fyrrverandi starfsmanna félagsins. Börn úr Brekkubæjarskóla undir stjórn Heiðrúnar Hámundardóttur sá um söngatriði á meðan borðhaldi stóð. Þá var Daníel Haraldsson, tæknistjóri HB Granda á Akranesi, kallaður upp og hann heiðraður með lófataki fyrir þátt sinn í að bæta umhverfismál félagsins. Sem kunnugt er hlaut HB Grandi á dögunum Umhverfisviðurkenningu Akranesbæjar fyrir viðleitni sína á sviði umhverfismála.

HB Grandi er með tvær aðrar starfsstöðvar á Akranesi, Norðanfisk ehf. og Vigni G. Jónsson hf. Hjá Norðanfiski var boðið upp á hangikjöt, síld, paté og eftirrétt og voru veislugestir um 25 talsins. Um 40 manns mættu svo hjá Vigni G. Jónssyni en þar var boðið upp á hamborgarhrygg.

Þá er aðeins ótalin jólaveislan á Vopnafirði en þar mættu um 120 manns í félagsheimilið. Í boði var hangikjötsveisla sem Hótel Tangi sá um og voru skipuleggjendur ánægðir með hve margir fulltrúa birgja og verktaka á staðnum mættu í veisluna.

 


Fleiri myndir með frétt

Nýjustu fréttir

Allar fréttir