FréttirSkrá á póstlista

16.12.2016

Nú er alltaf besta veðrið á Vestfjarðamiðum

Frystitogarinn Höfrungur III AK kom til Reykjavíkur í gærmorgun eftir 19 daga veiðiferð. Að sögn Haraldar Árnasonar skipstjóra náðist ekki fullt úthald vegna sjómannaverkfallsins sem hófst að nýju kl. 20 í fyrrakvöld.. Lengst af veiðiferðinni var Haraldur með skipið að veiðum á Austfjarðamiðum.

,,Við byrjuðum reyndar fyrir sunnan Reykjanes en sigldum síðan austur. Þerney RE hafði fengið þar ágætt grálúðuskot á leiðinni heim úr Barentshafinu og mér þótti því rétt að kanna hvort eitthvað væri að hafa þarna fyrir austan. Það kom í ljós að lítið var um grálúðu en við fengum dálítið af ufsa,“ segir Haraldur en að hans sögn eru hin fornfrægu mið Rósagarðurinn nú vart svipur hjá sjón.

,,Þarna fiskuðu menn fyrir siglingar með afla á sínum tíma og voru nokkuð vissir um góðan karfaafla og grálúðu með. Nú er allt breytt og það á ekki síst við um veturinn í vetur. Það hefur legið í suðlægum áttum og okkar reynsla er sú að þegar vindurinn stendur út af kantinum þarna fyrir austan, þá hverfi fiskurinn. Hlýr sjór fyrir sunnan landið, eins og menn tala um, hjálpar ekki. Það segir sína sögu að núna er alltaf besta veðrið á Vestfjarðamiðum. Öðru vísi mér áður brá. Það er vegna þess að við höfum ekki fengið norðaustanbrælur eins og við erum vanir. Ýsan hefur ekki gefið sig til vegna þess að það hefur ekki kólnað í vetur,“ segir Haraldur.

Frá Austfjarðamiðum var farið vestur með Norðurlandi áleiðis á Vestfjarðamið þar sem áhöfnin á Höfrungi III náði tæplega þremur dögum á veiðum.

,,Fyrir Norðurlandi eru norðlensku ísfisktogararnir á þorskveiðum en við sneiðum hjá þeirri tegund. Mestur tíminn fór í að leita að ufsa en það var lítið að hafa. Ýsu megum við veiða en hennar er ekki von fyrr en sjórinn kólnar. Mér telst til að við séum með um 385 tonn af blönduðum afla eftir þessa veiðiferð,“ sagði Haraldur Árnason.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir