FréttirSkrá á póstlista

10.12.2016

Uppsjávarveiðunum lokið á þessu ári

Víkingur AK er nú á landleið með fullfermi af kolmunna eða um 2.700 tonn. Þar með er uppsjávarveiðum skipa HB Granda lokið á þessu ári en fyrr í vikunni kom Venus NS með tæplega 2.600 tonna kolmunnaafla til Vopnafjarðar.

,,Ég reikna með því að við verðum á Vopnafirði í fyrramálið,“ sagði Hjalti Einarsson, skipstjóri á Víkingi, er rætt var við hann. Að sögn Hjalta eru ekki mörg skip eftir á kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni.

,,Færeyingarnir og Íslendingarnir eru sennilega búnir með kvóta sína og það var því aðeins einn Rússi að veiðum þegar við lukum við síðasta holið. Það er hálfgerð synd að hætta veiðum núna því það var töluvert að sjá og greinilega er mikið af kolmunna í færeysku lögsögunni.“

Nú þegar uppsjávarveiðum skipa HB Granda er lokið er ljóst að heildarafli Venusar og Víkings er hátt í 100 þúsund tonn á árinu. Áhöfn Venusar fagnaði á dögunum þeim áfanga að veiða meira en 50 þúsund tonn og að sögn Hjalta verður afli Víkings nálægt 45 þúsund tonnum. Þau mál skýrast betur þegar aflinn í lokatúrnum verður vigtaður eftir komuna til Vopnafjarðar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir