FréttirSkrá á póstlista

06.12.2016

Góð kolmunnaveiði en kvótinn á þrotum

,,Það er búin að vera mjög góð kolmunnaveiði hér í færeysku lögsögunni. Þetta er okkar önnur veiðiferð á kolmunnamiðin. Við vorum með um 2.600 tonna afla í fyrri túrnum og mér sýnist að þetta verði svipað núna. Þar með er kvóti ársins búinn hjá okkur.“

Þetta sagði Róbert Axelsson, skipstjóri á Venusi NS, er rætt var við hann um hádegisbilið. Venus var þá að veiðum norðaustan við Færeyjar en þar voru þá fjögur íslensk skip og eitt rússneskt. Víkingur AK var á leiðinni á miðin.

,,Það er búin að vera jöfn og góð veiði frá því áður en við komum á miðin. Við höfum togað frá um fimm tímum og upp í 11 tíma mest og aflinn hefur verið frá 400 tonnum og upp í um 600 tonn í holi,“ segir Róbert en hann segir kolmunnann vera af jafnri stærð og hann sé í góðum holdum.

,,Það er mikill munur á að stunda veiðarnar nú en á sama tíma í fyrra. Þá var alltaf kolvitlaust veður en það sem af er þessum vetri hefur verið stöðug blíða,“ segir Róbert Axelsson. 

Miðað við aflabrögðin ætti Venus að geta haldið áleiðis til Vopnafjarðar seint í kvöld eða í nótt. Þangað er um sólarhrings löng sigling frá veiðisvæðinu.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir