FréttirSkrá á póstlista

30.11.2016

Dauft á síldarmiðunum

Dapurt ástand er á síldarmiðunum vestan við land þessa dagana. Reikna má með því að þeir, sem eiga óveiddan kolmunnakvóta, snúi sér frekar að kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni og hvíli síldina á meðan lítið finnst af síld í veiðanlegu magni.

,,Það er búið að vera tregt hjá okkur síðan við komum á miðin í fyrradag,“ segir Hjalti Einarsson skipstjóri á Víkingi AK en skipið var statt um 100 sjómílur vestur af Reykjanesi er rætt var við Hjalta.

Þetta er fyrsti síldveiðitúr Víkings eftir að sjómannaverkfallinu var frestað en skipið var í slipp á Akureyri verkfallsdagana og fram eftir síðustu viku. Um var að ræða ástandsskoðun eins og kveðið var á um í samningi við tyrknesku skipasmíðastöðina, sem smíðaði skipið, en auk þess var skipið botnhreinsað og málað.

Að sögn Hjalta virðist lítið vera af síld vestan við land.

,,Menn voru að kroppa eitthvað úr torfum sem þeir rákust á í gær en í dag hefur síldin dreift sér. Það sést eitthvað ryk á mælum eins og um átu sé að ræða og stundum kemur upp síld ef kastað er á þessar daufu lóðningar. Það er ómögulegt að segja til um hvaðan þessi síld er komin eða hvert hún er að fara. Til þess er síldin of dreifð eða magnið of lítið. Við erum komnir með um 180 tonna afla en hugmyndin var sú að ná í vænan skemmt fyrir vinnsluna á Vopnafirði og fara svo á kolmunnaveiðar. Venus NS fór á kolmunna eftir að hafa landað síld á Vopnafirði og mér skilst að það fáist ágætur afli nú í færeysku lögsögunni,“ segir Hjalti Einarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir