FréttirSkrá á póstlista

22.11.2016

Fengu 1.200 tonn af síld í fimm holum

Búist er við að Venus NS verði kominn til heimahafnar á Vopnafirði í dag fyrir hádegi með um 1.200 tonn af síld. Aflinn, sem er sá fyrsti sem berst til Vopnafjarðar, eftir að sjómannaverkfalli var frestað, fékkst í fimm holum vestur af Faxaflóa.

,,Það er mun meira að sjá núna en dagana fyrir verkfall. Við fundum þokkalegar torfur sem voru að skila góðum afla ef við hittum rétt á þær,“ segir Róbert Axelsson, skipstjóri á Venusi. Róbert og hans menn voru fyrstir á miðin, eftir að verkfalli lauk, ásamt áhöfnum Bjarna Ólafssonar AK og Jónu Eðvalds SF.

Róbert segir að veðrið á miðunum hafi ekki verið upp á það besta til að byrja með. Það hafi þó ekki haft áhrif á veiðina.

,,Við byrjuðum norður undir Kolluál en færðum okkur svo sunnar. Síðustu holin tókum við í Faxadjúpi en það er norðvestur af Fjöllunum svokölluðu. Síldin er mjög væn eða um 340 grömm að jafnaði. Það var ekki nema í einu holi, sem við fengum smærri síld, en það var ekki stórt,“ sagði Róbert Axelsson en er rætt var við hann var Venus í veðurblíðunni suður af Mýrdalsjökli.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir