FréttirSkrá á póstlista

17.11.2016

Verkfalli lokið og skipin komin á sjó

Öll skip HB Granda eru nú á sjó utan hvað uppsjávarveiðiskipið Víkingur AK er í slipp. Allir fjórir ísfisktogarar félagsins eru komnir á veiðar eftir að skammvinnu sjómannaverkfalli lauk en auk þeirra eru frystitogarinn Höfrungur III AK og uppsjávarveiðiskipið Venus NS að veiðum. Frystitogararnir Þerney RE og Örfirisey RE eru á heimleið eftir veiðar í rússnesku lögsögunni í Barentshafi.

Leiðindaveður er nú á miðum vestan við land en verra er veðrið á Vestfjarðamiðum í því norðanáhlaupi sem nú gengur yfir landið.

-- Menn eru fegnir því að komast á sjó og að verkfallið hafi ekki staðið lengur yfir. Ég man a.m.k. ekki eftir jafn skjótri lausn á öllum mínum ferli sem sjómaður, segir Heimir Guðbjartsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK en togarinn var einn þriggja HB Granda togara sem létu úr höfn strax að kvöldi sl. þriðjudags. Hinir voru Ásbjörn RE og Höfrungur III AK.

-- Við byrjuðum á Fjöllunum en þar var rólegt yfir karfaveiðunum. Við færðum okkur því norður eftir og erum nú á höttunum eftir karfa í Kolluálnum. Það hefur verið bræla þessa fyrstu daga og nú eru hér um 20 m/s. Ástandið er enn verra á Vestfjarðamiðum en þangað er ferðinni heitið. Ég er bjartsýnn á sæmilegasta veður þegar norðanáttin gengur niður, sagði Heimir Guðbjartsson.

,,Við erum úti í Myrkri,“ sagði Arnar Ævarsson, skipstjóri á Höfrungi III AK, er við náðum tali af honum nú laust eftir hádegið. Veiðisvæðið, sem Arnar nefnir, er út af Skerjadjúpinu eða SV af Reykjanesi.

Að sögn Arnars hefur áhöfnin verið að eltast við djúpkarfa en sá fiskstofn er frekar vandveiddur þessa dagana.

-- Við höfum fengið djúpkarfa blandaðan saman við gulllax en það er enginn kraftur í veiðinni. Dagana fyrir verkfall vorum við að fá ágætis kropp af djúpkarfa í þrjá eða fjóra daga í Skerjadjúpinu. Nú er bræla hérna, segir Arnar en hann líkt og fleiri vonast eftir jákvæðri niðurstöðu þegar atkvæðagreiðslu um nýgerða kjarasamninga lýkur 14. desember sl.

,,Ég vonast til þess að samningarnir verði samþykktir. Það er hið besta mál að samkomulag hafi tekist um fiskverð en það skiptir okkur á frystitogurunum engu máli. Við erum með beina tengingu við markaðsverð og erum því undir áhrifum af styrkingu íslensku krónunnar,“ segir Arnar Ævarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir