FréttirSkrá á póstlista

10.11.2016

Búa sig undir verkfall og viku siglingu til Íslands

Tveir af frystitogurum HB Granda eru nú að veiðum í rússneskri lögsögu í Barentshafi. Komi til boðaðs verkfall sjómanna kl. 23 í kvöld verða veiðarfærin tekin um borð og siglt áleiðis að svokölluðum tékkpunkti inn og út úr rússnesku lögsögunni. Þangað er tveggja sólarhringa sigling frá þeim stað sem skipin eru nú á veiðum og reikna má með því að siglingin til Reykjavíkur taki um eina viku.

,,Ef verkfall skellur á þá verður híft og stefnan tekin suður og í átt til lands,“ segir Kristinn Gestsson, skipstjóri á Þerney RE, er rætt var við hann nú síðdegis. Auk Þerneyjar er Örfisisey RE að veiðum á svipuðum slóðum.

,,Þetta verður ekki fullur túr hjá okkur ef af verkfalli verður. Ég tók við skipinu í Kirkenes í Norður-Noregi þann 18. október og síðan þá höfum við fengið rúm 500 tonn af fiski upp úr sjó. Þerney var búinn að vera nokkrar vikur í Barentshafinu þegar ég kom um borð en það hafði gengið frekar illa. Skipið lenti í bilunum og svo var erfitt að eiga við veiðarnar vegna þeirra gríðarmiklu heræfinga Rússa í Barentshafi sem stóðu yfir og standa enn. Ég reikna með að við þurfum að sæta lagi og nýta vel þann tíma sem ætlaður er til almennrar skipaumferðar á leiðinni yfir í norsku lögsöguna,“ segir Kristinn en að hans sögn er það ekkert smáræðis hafsvæði sem Rússar lokuðu vegna heræfinganna. Svæðið nær frá norsku lögsögunni yfir til Novaja Semjla og alla leiðina norður í Smugu.

,,Við erum núna að toga við norðausturhorn Smugunnar, um 200 mílur frá Novaja Semjla, eða á 76°20´N en lengst höfum við farið norður á 77°N. Auk okkar togara eru hér einn rússneskur togari og einn frá Færeyjum. Það bjargaði túrnum að hér var mjög góð veiði alla helgina og vinnslan var keyrð á fullum afköstum en síðan brældi og eftir það er varla hægt að segja að við höfum haft í soðið,“ segir Kristinn Gestsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir