FréttirSkrá á póstlista

08.11.2016

Bolfiskvinnsla gæti hafist á Vopnafirði í desember

Framkvæmdum við nýja bolfiskvinnslu HB Granda á Vopnafirði miðar ágætlega. Að sögn Bárðar Jónassonar, tæknistjóra félagsins á Vopnafirði, hefur verkið þó tekið lengri tíma en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir en það stafar m.a. af vöntun á iðnaðarmönnum til starfa.

,,Það er þó komin góð mynd á þetta og við ættum að geta hafið hér bolfiskvinnslu í næsta mánuði að öllu forfallalausu. Boðað verkfall sjómanna ræður þar mestu og gæti sett strik í reikninginn komi það til framkvæmda,“ segir Bárður en samkvæmt upplýsingum hans er reiknað með því að um 20 manns, tæknimenn og starfsmenn HB Granda, muni koma að lokaþætti verksins.

,,Við eigum von á flæðilínunni frá Marel á morgun og eins roðrifsvélum og færibandi frá Skaganum. Það er búið að setja upp roðkælinn og næstu dagar fara í að bæta við þessum nýja búnaði. Þegar allt verður tilbúið á gólfinu tekur við vinna rafvirkja og tölvumanna. Loftræstikerfið er að mestu tilbúið en eftir á að setja upp sprinkler slökkvikerfið og ganga frá brunaviðvörunarbúnaði,“ segir Bárður Jónasson.

Hin nýja bolfiskvinnsla HB Granda er í gamla frystihúsinu á Vopnafirði og þar er gert ráð fyrir að 35-40 manns starfi á þeim tímum sem vinnsla liggur niðri í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á staðnum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir