FréttirSkrá á póstlista

04.11.2016

Treg veiði en síldin er stór og falleg

,,Það er frekar dapurt yfir þessu eins og staðan er núna og þótt verið sé að leita þá höfum við ekki fundið aðalgönguna enn sem komið er. Síldin, sem veiðist, er mjög stór og falleg og meðalvigtin er um 320-340 grömm.“

Þetta segir Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Venusi NS, en skipið er nú á leið til Vopnafjarðar með um 940 tonn af síld. Aflinn fékkst í sjö holum djúpt vestur af Reykjanesi. Að sögn Guðlaugs er reiknað með að Venus komi til Vopnafjarðar annað kvöld.

Guðlaugur er einn af reyndustu skipstjórum landsins á sviði uppsjávarveiða og hann segir að enn sem komið er hafi íslenska sumargotssíldin ekki gert vart við sig í nægilegu magni.

,,Það kom reyndar gott skot í fyrri nótt og það stóð fram á morgun. Skipin voru þá að fá 150 til 300 tonn í holi. Síðan var eins og að síldin gufaði upp og hún hefur ekki fundist í neinu magni þótt leitað hafi verið á stóru svæði,“ segir Guðlaugur en að hans sögn eru nú þrjú ár liðin síðan síldin gekk síðast inn í Breiðafjörð. Þá var miklu minna mál að finna síldartorfurnar en nú þegar síldin er dreifð djúpt vestan við landið.

Þetta er annar síldveiðitúr Venusar á þessu hausti en í fyrri veiðiferðinni fengust um 1.050 tonn. Auk Venusar sér Víkingur AK vinnslu HB Granda á Vopnafirði fyrir hráefni en Víkingur kom til Vopnafjarðar í gær með rúmlega 800 tonna afla.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir